Afturelding treysti stöðu sína í öðru sæti Grill 66-deildar kvenna í handknattleik í kvöld með öruggum átta marka sigri á FH, 33:25, á heimavelli í upphafsleik 14. umferðar. Katrín Helga Davíðsdóttir átti stórleik fyrir Aftureldingu. Hún skoraði 10 mörk úr 12 skotum, ekkert þeirra úr vítaköstum. Katrín Helga skrifaði nýverið undir nýjan tveggja ára samning við Aftureldingarliðið.
Mosfellingar voru með tögl og hagldir í leiknum að Varmá frá byrjun til enda. Fjórum mörkum munaði að loknum fyrri hálfleik, 16:12.
Afturelding hefur þar með 21 stig eftir 14 leiki og á fjóra leiki eftir. KA/Þór á leik inni og er þremur stigum fyrir ofan í efsta sæti. HK er þremur stigum á eftir Aftureldingu en á leik inni gegn Val2 á sunnudaginn. KA/Þór fær Berserki í heimsókn norður yfir heiðar á morgun.
FH situr sem fyrr í sjöunda sæti af 10 liðum með 11 stig.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Aftureldingar: Katrín Helga Davíðsdóttir 10, Hulda Dagsdóttir 6/5, Áróra Eir Pálsdóttir 4, Lovísa Líf Helenudóttir 4, Ragnhildur Hjartardóttir 2, Anna Katrín Bjarkadóttir 2, Susan Ines Gamboa 2, Fanney Ösp Finnsdóttir 1, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 1, Ísabella Sól Huginsdóttir 1.
Varin skot: Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 9, 33,3% – Saga Sif Gísladóttir 1/1, 12,5%.
Mörk FH: Hildur Guðjónsdóttir 7/7, Ena Car 6, Sara Björg Davíðsdóttir 4, Telma Medos 2, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir 2, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 2, Aníta Björk Valgeirsdóttir 2.
Varin skot: Sara Xiao Reykdal 6, 20,7% – Sigurdís Sjöfn Freysdóttir 1, 9,1%.
Tölfræði HBStatz.