- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sá besti framlengir við höfuðborgarliðið til 2029 – sendir skýr skilaboð

Daninn Mathias Gidsel. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Fremsti handknattleiksmaður heims um þessar mundir, Daninn Mathias Gidsel, hefur skrifað undir framlengingu á samningi sínum við þýska höfuðborgarliðið Füchse Berlin. Nýi samningurinn gildir fram á mitt ár 2029 og er ári lengri en fyrri samningur Danans við félagið. Þrátt fyrir að hafa verið með langan samning þá lá í loftinu að eitthvað af stærri félögum evrópsks handknattleiks renndu hýru auga til Gidsel með von um að geta lokkað hann frá Berlínarliðinu.

Ekki láta ykkur dreyma

Með nýjum samningi, sem greint var frá í gær, áður en Füchse Berlin mætti grannliðinu Potsdam í þýsku 1. deildinni, senda Gidsel og félagið skýr skilaboð til forráðamanna stærstu félaga Evrópu að árangurslaust sé að gera hosur sínar grænar fyrir Dananum sem hefur verið markahæsti leikmaður fjögurra síðustu stórmóta landsliða.

Þrjú ár í Berlín

Gidsel gekk til liðs við Füchse Berlin 2022 eftir að hafa slegið í gegn með GOG og danska landsliðinu á HM 2021. Stjórnendur Berlínarliðsins voru klókir þegar þeir sömdu við Gidsel hálfu ári áður en samningurinn tók gildi meðan önnur lið veltu vöngum hvort Gidsel væri eitthvað stundarfyrirbrigði á handboltavellinum.

Varð 26 ára á laugardaginn

Gidsel varð 26 ára gamall á laugardaginn. Hann er fæddur í Skjern á Jótlandi en gekk 15 ára gamall til liðs við GOG á Fjóni og æfði hjá alþekktri akademíu félagsins sem skilað hefur af sér mörgum fremstu handknattleiksmönnum Dana á síðari árum.

Gidsel setti markamet í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð þegar hann skoraði 260 mörk, ekkert þeirra úr vítakasti. Enginn hefur skorað fleiri mörk á einni leiktíð að frádregnum vítaköstum. Hann varð markakóngur Ólympíuleikanna í sumar og HM á dögunum, skoraði 74 mörk, eitt úr vítakasti, og bætti 30 ára gamalt met í fjölda skoraðra marka að frádregnum vítaköstum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -