Útlit er fyrir að danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg, sem Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson leika með, tapi stiginu sem það fékk í Grindsted á laugardaginn þegar liðin skildu jöfn. Þar með þyngdist róður liðsins ennþá meira í fallbaráttu úrvalsdeildarinnar. Forráðamenn Grindsted hafa kært framkvæmd leiksins vegna þess að þjálfari Ribe-Esbjerg var á að tefla fram leikmanni sem ekki var skráður á skýrslu.
Marc Uhd þjálfari Ribe-Esbjerg segir í samtali við JydskeVestkysten, sem vefur TV2 í Danmörku vitnar til, að hann telji afar sennilegt að liðið tapi leiknum vegna mistakanna.
Fari svo að Grindsted verði dæmdur sigur í leiknum hafa liðin sætaskipti í tveimur neðstu sætum úrvalsdeildarinnar. Ribe-Esbjerg fellur niður í 14. og neðsta sæti með fimm stig en nýliðar Grindsted fara upp í 13. og næst neðsta sæti. Sex umferðir eru eftir óleiknar í deildinni. Neðsta liðið fellur úr deildinni í vor en þau sem verða í fimm næstu sætum taka þátt í umspili um að forðast fall.