Valur lagði ÍR með þriggja marka mun, 22:19, á heimavelli í kvöld í Olísdeild kvenna í handknattleik. Þetta var þriðji leikur Vals á sex dögum og mátti sjá það á leik liðsins, ekki síst þegar líða tók á. Valsliðið var með fimm marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 13:8.
Valur er vitanlega eftir sem áður í efsta sæti Olísdeildar með 30 stig að loknum sextán leikjum. ÍR er í sjötta sæti með níu stig þegar 15 leikjum er lokið.
ÍR-ingar undirstrikuðu framfarirnir sem lið þeirra hefur verið að taka jafnt og þétt síðustu vikur. Ekki síst var varnarleikur liðsins góður og Ingunn María Brynjarsdóttir var öflug í markinu. ÍR-ingar léku af fullum krafti allt til leiksloka.
Ljóst var að þreyta sat í Valsliðnu eftir mikla törn upp á síðkastið. Leikmenn voru óvenju mistækar í sóknarleiknum og nokkrar voru aðeins skugginn af sjálfum sér. Elín Rósa Magnúsdóttir var best þeirra ásamt Hafdísi Renötudóttur í markinu sem var í enn eitt skiptið með nærri 50% hlutfallsmarkvörslu.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7/5, Sigríður Hauksdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Lovísa Thompson 2, Elísa Elíasdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 17, 47,2%.
Mörk ÍR: Katrín Tinna Jensdóttir 5, María Leifsdóttir 3, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Vaka Líf Kristinsdóttir 2, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Anna María Aðalsteinsdóttir 1, Erla María Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 14/1, 38,9%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.