Kári Kristján Kristjánsson línumaðurinn sterki hjá ÍBV leikur væntanlega ekki fleiri leiki með liðinu á leiktíðinni vegna veikinda og alfleiðinga þeirra sem m.a. urðu til þess að hann var fluttur með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum í síðustu viku. Kári Kristján segir frá þessu í samtali við RÚV í dag.
Fór í hjartaþræðingu
Grunur var uppi um að Kári væri orðinn veikur fyrir hjarta og fór hann m.a. í hjartaþræðingu á Landspítalanum vegna mikillar hjartabólgu. Kári segir við RÚV að talið sé að streptókokkar hafi valdið veikindunum en hann veiktist um síðustu mánaðamót er hann var í starfi sem sérfræðingur RÚV meðan heimsmeistaramótið stóð yfir.
Streptókokkasýking sennilegur valdur
„Það er ekki nákvæmlega vitað hver orsökin á þessu öllu saman var, en það bendir flest til þess að streptókokkasýkingin hafi átt upptökin. Líklega hefði þurft að meðhöndla streptókokkana fyrr, því þegar sýklalyfin byrjuðu að virka á mig fóru bólgurnar við hjartað sömuleiðis að minnka vel,“ segir Kári Kristján í fyrrgreindu viðtali við RÚV.
Á að taka því rólega
Kára Kristjáni hefur verið skipað að hafa hægt um sig næstu mánuði. „Læknirinn talaði um þrjá mánuði. Á handboltamáli þýðir það að ég spili ekki meira á leiktíðinni, en við sjáum til með það,“ sagði Kári sem er 41 árs, en er ekki tilbúinn að hætta í handbolta nema á eigin forsendum.
Nánar er rætt við Kára Kristján á fréttavef RÚV: