Handknattleikskonurnar ungu Elín Klara Þorkelsdóttir og Embla Steindórsdóttir fóru á kostum með liðum sínum, Haukum og Stjörnunni, þegar þau mættust í Olísdeild kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Elín Klara og félagar höfðu betur, 29:24, eftir að hafa einnig verið fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:13.
Elín Klara skoraði 10 mörk í 11 skotum og var með þrjú sköpuð færi auk níu löglegra stoppa í vörninni. Embla bætti um betur var með 13 mörk í 20 skotum og sex sköpuð færi fyrir Stjörnuliðið. Embla var með fimm löglegar stöðvanir í vörn. Sú fyrrnefnda skoraði átta mörk í fyrri hálfleik.

Haukar voru með yfirhöndina í leiknum frá byrjun. Stjörnunni tókst aldrei að ógna forskotinu að nokkru marki en minnstur var munurinn fjögur mörk í síðari hálfleik, 24:20.
Stjarnan er í sjötta sæti eftir sem áður með 10 stig eftit 16 leiki. Haukar eru 16 stigum ofar í öðru sæti, sex stigum og einum leik á eftir Val sem trónir á toppnum.
Stjarnan á ekki leik aftur fyrr en eftir mánuð. Framundan er hlé vegna undanúrslita og úrslita í Poweradebikarnum í næstu viku. Eftir það tekur við æfingavika hjá landsliðinu.
Haukar standa hinsvegar í ströngu. Á laugardaginn mætir liðið Hazena Kynzvart frá Tékklandi í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar og að rúmri viku liðinni Gróttu í undanúrslitum Poweradebikarsins.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 10/3, Sara Odden 6, Sara Katrín Gunnarsdóttir 4, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 5/2, 27,8% – Sara Sif Helgadóttir 4, 26,7%.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 13/5, Anna Karen Hansdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Anna Lára Davíðsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 7/1, 26,9% – Aki Ueshima 0.
Tölfræði HBstatz.