- Auglýsing -
- Það er ævinlega mikill heiður fyrir hvern íþróttamann að vera valinn fánaberi þjóðar sinn við setningu Ólympíuleika. Vitað er um að minnsta kosti þrjá handknattleiksmenn sem verða þess heiðurs aðnjótandi annað kvöld þegar Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó. Jovanka Radicevic verður fánaberi Svartfjallalands, önnur kona, Natalia Bernardo fer fyrir íþróttahópi Angóla og Husain Alsayyad verður fánaberi Barein.
- Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau fá heimaleik í 1. umferð þýsku 1. deildarinnar þegar flautað verður til leiks 4. september. Andstæðingurinn verður lið Union Halle-Neustadt sem hafnaði í 12. sæti af 16 liðum 1.deildar á síðasta keppnistímabili. BSV Sachsen Zwickau leikur í efstu deild þýska handknattleiksins í fyrsta sinn í aldarfjórðung.
- Hinn gamalreyndi sænski handknattleiksmaður Jonas Källman er alls ekki af baki dottinn. Hann hefur skrifað undir samning við Benfica í Portúgal. Källman yfirgaf herbúðir Pick Szeged við lok nýliðinnar leiktíðar eftir átta ára veru og flest benti til þess að hann ætlaði að flytja heim til Svíþjóðar og ljúka ferlinum þar. Svo er alls ekki.
- Benfica hefur einnig krækt í rúmensku skyttuna Demis Grigoras sem síðast lék með Chambéry í Frakklandi en hefur víða komið við á ferlinum.
- Sænska landsliðskonan Isabelle Andersson sleit krossband í æfingaleik Svía og Norðmanna í Tókýó á þriðjudaginn. Hún verður þar af leiðandi ekki með sænska landsliðinu á leikunum og er á heimleið frá Japan. Í hennar stað var Johanna Westberg leikmaður Nyköbing Falster í Danmörku í gærmorgun kölluð í skyndi til Tókýó.
- Frederik Clausen fyrirliði danska handknattleiksliðsins GOG sem Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður leikur með verður væntanlega ekki með GOG fyrr en í fyrsta lagi seint á þessu ári. Clausen er meiddur á hné og Nicolej Krickau þjálfari GOG er ekki bjartsýnn fyrir hönd fyrirliðans.
- Auglýsing -