„Það var ljóst ef við ætluðum okkur áttunda sæti þá yrðum við að vinna þennan leik,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari karlaliðs HK eftir fjögurra marka sigur á KA, 33:29, í Olísdeild karla í handknattleik í Kórnum í kvöld.
„Ég var virkilega ánægður með frammistöðu strákanna, mjög solid frammistaða og í takti við það sem höfum verið að sýna í leikjum eftir áramót. Leikirnir hafa verið svipaðir að gæðum,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur en HK hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum.
HK var með yfirhöndina í leiknum frá byrjun til enda. Eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik þá tókst KA fljótlega að minnka muninn í tvö mörk. Virtist sem stefndi í jafnan leik. Sú varð ekki raunin.
„Þarna hefðum við getað brotnað og orðið hræddir á þessum tíma en það varð ekki og fljótlega náðum við sjö marka forskoti sem kláraði leikinn,“ sagði Halldór ennfremur sem ítrekaði að hann væri ánægður með sína sveit og hversu margir leikmenn leggðu saman í púkkið.
„Það hefur verið okkar styrkur í vetur að allir hafa komið með framlag og vonandi verður svo áfram. Það er allir klárir í slaginn sem skiptir miklu máli,“ sagði Halldór Jóhann sem segir sig og leikmenn sína aðeins hugsa um næsta leik sem verður gegn ÍR í Skógarseli.
Lengra viðtal við Halldór Jóhann er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.