„Það getur allt gerst í Evrópuboltanum. Við verðum fyrst fremst að mæta vel undirbúnar í síðari leikinn eins og þann fyrri. Við lékum frábæran varnarleik í dag og náðum að koma í veg fyrir hraðaupphlaup þeirra,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson hinn þrautreyndi þjálfari Íslandsmeistara Vals sem mætir Slavía Prag í öðru sinni í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda klukkan 16 í dag.
Valur vann viðureignina í gær með sjö marka mun, 28:21, og þarf að halda vel á spöðunum í dag svo sæti í undanúrslitum renni liðinu ekki úr greipum. Ágúst Þór hvetur fólk til þess að mæta á leikinn í dag.
Vonbrigði með aðsóknina
„Ég varð fyrir vonbrigðum með aðsóknina á fyrri leikinn. Við þurfum fleira fólk til að styðja við bakið á okkur í þessu verkefni. Ég vona svo innilega að fólk fjölmenni á síðari leikinn. Við erum í dauðafæri til að fara áfram í undanúrslit. Það er ekki nóg að vera í dauðafæri, það þarf að skora úr færinu,“ segir Ágúst Þór í samtali við handbolta.is.
„Það væri frábært að ná kvennaliði í undanúrslit. Ég hef einu sinni náð svo langt en tapaði fyrir rúmensku liði í undanúrslitum. Við ætlum að tryggja okkur inn í undanúrslit,“ segir Ágúst Þór ennfremur.
Í undanúrslitum fyrir 19 árum
Árangurinn sem Ágúst vísar til er leiktíðina 2005/2006 þegar Valur þjálfað af Ágústi Þór varð annað íslenska kvennaliðið til þess að ná í undanúrslit í Evrópukeppni félagsliða í kvennaflokki. Valur tapaði fyrir Tomis Constanta í undanúrslitum, 65:60, samanlagt í tveimur leikjum.
ÍBV fyrst í undanúrslit
ÍBV, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, varð fyrst kvennaliða frá Íslandi í undanúrslit Evrópumóta félagsliða leiktíðina 2003/2004 en féll úr keppni eftir tvo tapleiki fyrir þýska liðinu FC Nürnberg sem hinn kunni þjálfari Herbert Müller stýrði.
Lengra viðtal við Ágúst Þór er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.