Dana Björg Guðmundsdóttir átti stórleik fyrir Volda í dag þegar liðið vann Pors, 30:17, í næst efstu deild norska handknattleiksins á heimavelli. Dana Björg skoraði níu mörk í 11 skotum. Hún lét einnig til sín taka í vörninni og varð fyrir vikið að bíta í það súra epli að vera í eitt skipti vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Dana Björg var markahæst hjá Volda sem er í efsta sæti deildarinnar með 37 stig eftir 20 leiki. Fjellhammer er tveimur stigum á eftir.
Fjellhammer vann Fyllingen, 35:16, á útivelli í gær. Birta Rún Grétarsdóttir skoraði ekki fyrir Fjellahammer í viðureigninni.
Eitt lið fer beint upp úr deildinni í úrvalsdeildina en liðin í öðru og þriðja sæti fara í umspil.
- Auglýsing -