- Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir One Veszprém HC eins og félagið heitir núna þegar það vann öruggan sigur á CYEB-Budakalász, 38:22 í ungversku 1. deildinni á útivelli í gær. Bjarki Már Elísson er ennþá úr leik vegna meiðsla. One Veszprém HC er í efsta sæti ungversku deildarinnar með 30 stig eftir 16 leiki, hefur tveggja stiga forskot á Pick Szeged.
- Þess má til gamans geta að Króatinn Josip Juric Gric, sem lék með Val leiktíðina 2016/2017 skoraði tvö mörk í fyrir CYEB-Budakalász. Hann hefur leikið með liðinu í nokkur ár.
- Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki mark og virtist hafa komið lítið við sögu þegar Fredericia HK vann Nordsjælland, 34:32, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær.
- Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK sem er í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig eftir 19 leiki. Aalborg Håndbold er efst með 33 stig, þremur stigum á undan GOG. Aalborg Håndbold vann GOG í fyrradag, 32:27.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk þegar lið hans, Sporting, vann Nazaré Fuas, 33:21, í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Sporting er ásamt FC Porto í efstu tveimur sætum deildarinnar. Hvort lið hefur unnið 19 af 20 leikjum sínum fram til þessa.
- Áfram halda Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsfélagar í svissneska meistaraliðinu Kadetten Schaffhausen á sigurbraut. Þeir unnu RTV Basel á útivelli, 36:30. Óðinn Þór skoraði sex mörk og var næst markahæstur. Kadetten er efst í A-deildinni með 41 stig eftir 22 leiki. HC Kriens-Luzern er næst á eftir með 30 stig að loknum 20 leikjum.
- Ýmir Örn Gíslason og liðsmenn Göppingen töpuðu á heimavelli fyrir SC Magdeburg, 28:25, í þýsku 1. deildinni í gær. Ýmir Örn skoraði ekki mark en tók til hendinni í vörninni. Honum var m.a. vikið af leikvelli í tvígang í tvær mínútur í hvort skipti.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku ekki með Magdeburg vegna meiðsla. Magdeburg er í 6. sæti með 25 stig eftir 17 leiki. Liðið á þrjá leiki inni á liðin fyrir ofan. Göppingen er í 14. sæti með 12 stig að loknum 20 leikjum af 34.
- Auglýsing -