Dregið verður í fyrramálið í átta liða úrslit Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Tvö grísk lið eru í pottinum auk Hauka og fimm liða frá Rúmeníu, Norður Makedóníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Noregi.
Engar takmarkanir verða þegar dregið verður þannig að t.d. geta Haukar mætt hvaða liði sem er af þeim sjö sem eftir standa.
Auk Hauka er tvö lið af átta liðum sem Valur mætti á leið sinni til sigurs í keppninni á síðasta ári. CS Minaur Baia Mare tapaði fyrir Val í undanúrslitum og gríska liðið Olympiakos sem Valsmenn lögðu í úrslitaleikjunum eftir mikla spennu og vítakeppni í síðari úrslitaleiknum í Aþenu.
Einnig er á meðal liða í átta liða úrslitum RK Partizan sem tapaði fyrir FH í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í október 2023. RK Partizan er í efsta sæti serbnesku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.
Leikir átta liða úrslita eiga að fara fram 22. og 23. mars og 29. og 30. mars.
Eftir að dregið hefur verið í átta liða úrslit verður dregið til undanúrslita sem leikin verða í lok apríl.
Liðin átta sem eftir eru:
Haukar.
AEK Aþena HC (Grikkland).
CS Minaur Baia Mare (Rúmenía).
HC Alkaloid (Norður Makedónía).
HC Izvidac (Bosnía og Hersegóvína).
Olympiakos SFP (Grikkland).
RK Partizan AdmiralBet (Serbía).
Runar Sandefjord (Noregur).