- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Aron og Bareinar velgdu Svíum undir uggum

Aron Kristjánsson lengst t.v. stýrir sínum mönnum í landsliðið Barein á ÓL. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Aron Kristjánsson og leikmenn hans í landsliði Barein voru grátlega nærri öðru stiginu í upphafsleik sínum í B-riðli handknattleikskeppni Ólympíuleikanna sem hófst í nótt. Barein mætti silfurmeisturum síðasta heimsmeistaramóts, Svíum, og voru með yfirhöndina lengst af í leiknum. Svíarnir voru sterkari á lokasprettinum og skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins og unnu með eins marks mun, 32:31. Bareinar áttu lokasókn leiksins en tókst ekki að jafna metin þrátt fyrir ákafar tilraunir. Andreas Palicka markvörður Svía varði vítakast á síðustu sekúndu.


Bareinar, sem nú tekur þátt í fyrsta sinn í handknattleikskeppni Ólympíuleika, voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:16. Bareinar voru með eins til tveggja marka forskot allan síðari hálfleik, síðast 31:29, þegar Ali Hassan kom þeim yfir þegar sex mínútur voru til leiksloka.
Albin Lagergren skoraði sigurmark Svía þegar 52 sekúndur voru til leiksloka.


Hampus Wanne fór á kostum í sænska liðinu og skorað 13 mörk í 17 skotum. Lagergren var næstur með fimm mörk. Mohamed Ahmed skoraði sex mörk fyrir landslið Barein en það var hann sem brást bogalistin í lokin í vítakasti á móti Palicka.

Norðmenn voru sannfærandi og gátu fagnað í síðari hálfleik gegn Brasilíumönnum. Mynd/EPA

Norðmenn sterkir


Í A-riðli er tveimur leikjum af þremur lokið. Noregur vann Brasilíu, 27:24, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 13:12. Norðmenn sneru við blaðinu í síðari hálfleik og virkuðu sannfærandi í sínum fyrsta leik í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum frá árinu 1972.
Sander Sagosen skoraði átta mörk fyrir norska landslðið. Bjarte Myrhol og Harald Reinkind skoruðu fjórum sinnum hvor. Haniel Langaro skoraði fimm mörk og var markahæstur Brasilíumanna.

Dika Mem og Ludovic Fabregas leikmenn franska landsliðsins glaðir í bragði. Mynd/EPA


Argentínumenn voru Frökkum ekki mikil hindrun, ekki frekar en við var búist. Franska liðið var með tögl og hagldir frá upphafi til enda, þar á meðal 12:10 í hálfleik. Leikurinn varð aldrei spennandi.
Melvyn Richardson skoraði sjö mörk úr sjö skotum fyrir franska landsliðið og var markahæstur. Hugo Descat, Ludovic Fabregas og Nedim Remili skoruðu fjögur mörk hver.
Hinn þrautreyndi og snjalli handknattleiksmaður, Diego Simonet, var markahæstur í argentínska liðinu með átta mörk úr níu skotum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -