- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stór ákvörðun að taka þegar lífið hefur snúist um handbolta í rúmlega 20 ár

Sunna Jónsdóttir í viðtali fyrir æfingu íslenska landsliðsins i Innsbruck 28. nóvember 2024. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Á dögunum var sagt frá því að Sunna Jónsdóttir handknattleikskona hjá ÍBV hafi ákveðið að láta gott heita með landsliðinu eftir 16 ára feril. Hún segir ákvörðunina sína hafa legið fyrir um nokkurn tíma eða frá því fyrir EM undir lok síðasta árs.

Sunna segir ennfremur í samtali við handbolta.is að líklegt sé að hún láti hreinlega gott heita af handknattleiksiðkun í vor í lok leiktíðar. Samningur hennar við ÍBV rennur þá út og e.t.v. kominn tími til að rifa seglin. „Það er stór ákvörðun að taka þegar lífið hefur snúist um handbolta í rúmlega 20 ár. Handbolti er mín ástríða og það skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Sunna.

Flottar tölur til að hætta með

Sunna segist vera afar þakklát fyrir ferilinn með landsliðinu. Landsleikirnir eru 99 og mörkin 66. Flottar tölur til að hætta með,“ segir Sunna glöð í bragði.

„Ég er þakklát og stolt yfir að fengið öll þessi ár með landsliðinu. Ákvörðunin hefur blundað í mér lengi. Ég ræddi um það við Arnar [Pétursson landsliðsþjálfara] fyrir talsverðu síðan að ef við kæmumst inn á EM 2024 þá yrði mótið endir á minni vegferð með landsliðinu. Ég tel landsliðið vera á mjög góðri leið,“ segir Sunna í samtali við handbolti.is.

Reynsla og lærdómur

„Þegar upp er staðið er ég fyrst og fremst þakklát þegar ég lít til baka á árin með landsliðinu. Það hafa verið hæðir og lægðir en um leið mikil reynsla og lærdómur,“ segir Sunna um árin með landsliðinu en hún lék sinn fyrsta landsleik 2009 þegar Júlíus Jónasson var landsliðsþjálfari. Sunna var síðan í landsliðinu sem tók þátt í fyrsta stórmótinu; EM 2010 í Danmörku.

Hlakkar til að fylgjast með

Sunna segir framtíð kvennahandboltans vera bjarta hér á landi. fjölmennur hópur stúlkna er að koma fram á sjónarsviðið með hárrétt hugarfar auk þess sem vel sé haldið utan um þær hjá félögunum og landsliðinu. „Við erum að taka framfaraskref. Ég hlakka til að fylgjast með landsliðinu í framtíðinni.”

Sunna Jónsdóttir fyrirliði í 99. og síðasta landsleiknum, gegn Þýskalandi á EM í Innsbruck 3. desember 2024. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Fær sér kannski húðflúr

Sunna segir að vel geti farið að hún fái sér húðflúr með tölunum 99 og 66 til marks um landsleikina og mörkin sem hún skoraði með landsliðinu á ferlinum. „Kjartan Vídó [Ólafsson markaðsstjóri HSÍ] hvatti mig til þess að ná 100 landsleikjum. Ég held að það sé bara skemmtilegra að hætta með 99 landsleiki og 66 mörk. Þetta eru flottar tölur til að hætta með,” segir Sunna.

Líklega síðasta tímabilið

Spurð hvor hún hyggist hætta alfarið að keppa í handknattleik, ekki aðeins með landsliðinu heldur einnig félagsliðum svarar Sunna að það komi sterklega til greina.

„Mér finnst ansi líklegt að þetta sé minn síðasti vetur með ÍBV. Það er stór ákvörðun að taka þegar lífið hefur snúist um handbolta í rúmlega 20 ár. Handbolti er mín ástríða og það skemmtilegasta sem ég geri. Skórnir verða einhverstaðar en ég reikna með að láta gott heita í vor,” segir Sunna.

Sonurinn er sjúkur í handboltann

Ef til þess kemur að Sunna leggi skóna á hilluna í vor segist hún ekki snúa baki við handboltanum. „Ég efast ekkert um að handboltinn verði alltaf ofarlega á blaði hjá mér. Ég er þegar að þjálfa yngri flokka. Sex ára gamall sonur minn er orðinn sjúkur þannig að handboltinn fer ekkert langt þótt ég hætti sjálf að spila. Ég hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,” segir Sunna Jónsdóttir handknattleikskona í samtali við handbolta.is.

Lengra viðtal við Sunnu er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -