Dagur Gautason og liðsfélagar í franska liðinu Montpellier innsigluðu í kvöld sæti í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik. Þeir unnu danska liðið GOG, 30:28, á heimavelli í næstu síðustu umferð í riðli eitt í 16-liða úrslitum. Montpellier hefur þar með þriggja stiga forskot í efsta sæti fyrir lokaumferðina. GOG er í öðru sæti. Efsta lið hvers riðlanna fjögurra fer rakleitt í átta liða úrslit en liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti fara í útsláttarkeppni um sæti í átta liða úrslitum.
Dagur skoraði þrjú mörk í fjórum skotum á heimavelli í kvöld.
Stiven skoraði tvö í Ystad
Stiven Tobar Valencia og félagar í Benfica töpuðu fyrir Ystads IF í Svíþjóð í kvöld í riðli tvö í Evrópudeildinni, 37:33. Stiven skoraði tvö mörk og var einu sinni vikið af leikvelli.
Eiga þriðja sætið víst
Benfica á þriðja sæti riðilsins víst með fjögur stig fyrir lokaleikinn gegn Bidasoa Irún eftir viku. Þótt Benfica tapi leiknum og Ystad leggi franska liðið Limoges, og nær þar með einnig fjórum stigum samanlagt, þá stendur Benfica betur að vígi í innbyrðis leikjum gegn sænska liðinu.
Í kröppum dans
MT Melsungen með Elvar Örn Jónsson innan sinna raða náði öðru stiginu gegn Vojvodina frá Serbíu í kvöld á heimavelli, 26:26, í riðli þrjú. Daninn Aaron Mensing tryggði Melsungen annað stigið þegar hann jafnaði metin á síðustu sekúndum gegn harðskeyttu liði Vojvodina sem lék sinn fyrsta leik undir stjórn Vladan Matic.
Elvar Örn skoraði ekki mark en tók til hendinni í vörninni og var m.a. vikið í tvígang af leikvelli í tvær mínútur.
Porto stendur höllum fæti
Jafnteflið opnaði möguleika fyrir Vojvodina á þriðja sæti þriðja riðils því á sama tíma tapaði FC Porto fyrir Kiel. Aðeins munar einu stigi á Porto og Vojvodina en Þorsteinn Leó Gunnarsson og félagar sækja Vojvodina heim til Novi Sad eftir viku.
Þorsteinn markahæstur
Þorsteinn Leó var markahæstur hjá Porto í kvöld með fimm mörk ásamt Daymaro Salina í fimm marka tapi á heimavelli fyrir THW Kiel, 35:30.
Með sigrinum komst Kiel upp í efsta sæti riðils þrjú með 9 stig. Melsungen er með átta, Porto tvö og Vojvodina eitt.
Sjá einnig: Elliði Snær fór á kostum – hörkukeppni um sæti í riðlunum
Sjá öll úrslit kvöldsins og stöðuna: