Fram leikur við Stjörnuna í úrslitaleik Poweradebikarsins í handknattleik karla. Fram lagði Aftureldingu, 36:33, í æsilega spennandi famlengdum undanúrslitaleik á Ásvöllum, 36:33. Staðan var jöfn að loknum venjulegum leiktíma, 30:30. Fram var þremur mörkum yfir í hálfleik, 19:16. Fram leikur í 13. sinn til úrslita í bikarkeppninni í karlaflokki klukkan 16 á laugardaginn.
Fram var yfir eftir 30 mínútna leik, 19:16, eftir að Aftureldingarmenn höfðu ekki sýnt sitt rétt andlit og m.a. lent undir, 4:0, strax á upphafsmínútunum.
Síðari hálfleikur var jafn og spennandi, ekki síst síðari fimmtán mínúturnar. Árni Bragi Eyjólfsson kom Aftureldingu yfir í fyrsta sinn í leiknum með marki eftir hraðaupphlaup 30 sekúndum fyrir leikslok.
Dagur Fannar Möller jafnaði fyrir Fram fimm sekúndum fyrir leikslok, 30:30. Aftureldingarmenn reyndu að nýta síðustu fimm sekúndurnar en tókst óhöndulega til og misstu boltann áður en leiktíminn var úti.


Fram komst tveimur mörkum yfir, 33:31, rétt fyrir lok fyrri hluta framlengingarinnar en Birgir Steinn Jónsson svaraði rétt áður en leiktíminn var úti, 33:32. Mikilvægt mark fyrir Aftureldingu vegna þess að Fram áttu fyrstu sókn síðari hluta framlengingarinnar. Eftir aðeins mínútu og 20 sekúndur í síðari hlutanum hafði Fram náð þriggja marka forskoti, 35:32. Blær Hinriksson skoraði en var kominn með slæman krampa í kálfa og varð að fara af leikvelli.


Fram lék manni færri síðustu tvær mínúturnar eftir að Degi Fannari var vikið af leikvelli. Nokkuð sem má helst ekki eiga sér stað í framlengingu. Breki Hrafn Árnason markvörður Fram varði í þrígang í röð á síðustu 90 sekúndum og hindraði Mosfellingum leiðina í markið. Þorstein Gauti Hjálmarsson sá síðan um að skora 36. markið sem innsiglaði sigurinn, 36:33.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 8, Ívar Logi Styrmisson 7/1, Dagur Fannar Möller 5, Rúnar Kárason 4, Eiður Rafn Valsson 4, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 4, Arnór Máni Daðason 1, Tryggvi Garðar Jónsson 1, Erlendur Guðmundsson 1, Magnús Öder Einarsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 13, 33,3% – Breki Hrafn Árnason 8/2, 53,3%.
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 11/2, Birgir Steinn Jónsson 9/2, Árni Bragi Eyjólfsson 5, Harri Halldórsson 3, Stefán Magni Hjartarson 2, Kristján Ottó Hjálmsson 2, Ihor Kopyshynskyi 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 22, 39,3% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 1/1, 100%.
Tölfræði HBStatz.