„Við fundum einhverja orku þegar kom inn í framlenginguna auk þess sem okkur tókst að pota inn skítamörkum meðan þeir náðu því ekki,“ segir Rúnar Kárason í samtali við handbolta.is eftir að Fram vann Aftureldingu, 36:33, eftir framlengda viðureign í undanúrslitum Poweradbikars karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.
Erfiður leikur tveggja jafnra liða
„Bara virðing á Aftureldingarliðið sem lék frábæra vörn auk þess sem Einar Baldvin var flottur í markinu. Þetta var mjög erfiður leikur á milli tveggja jafnra liða. Við vorum á undan megnið af leiknum og kannski var þetta verðskuldað þótt Aftureldingarmenn séu örugglega ekki sammála mér,“ sagði Rúnar.
Spurður hvort eitthvað hafi farið um menn þegar Afturelding komst yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar 30 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma segir Rúnar svo ekki vera. „Úr því að við klúðruðum ekki leiknum þá gátum við ekki klúðrað leiknum þegar kom inn í framlenginguna.“
Ef við köllum okkar besta fram
Fram mætir Stjörnunni í úrslitaleik Poweradebikarsins sem hefst klukkan 16 ár laugardaginn á Ásvöllum. „Ef við köllum okkar besta fram þá er ég viss um að við vinnum leikinn,“ segir Rúnar Kárason.
Lengra viðtal er við Rúnar í myndskeiði hér fyrir ofan.
Framarar í úrslit eftir háspennu og framlengingu