Fram leikur til úrslita bæði í kvenna- og karlaflokki í Poweradebikarnum í handknattleik á laugardaginn. Kvennalið félagsins fylgdi í kvöld eftir karlaliðinu sem í gær vann sína viðureign í undanúrslitum. Kvennalið Fram vann Val, bikarmeistara þriggja síðustu ára, með tveggja marka mun á Ásvöllum í kvöld, 22:20. Fram getur bætt 17. bikarmeistaratitlinum í safnið á laugardaginn en ekkert lið hefur oftar orðið bikarmeistari í kvennaflokki.
Darija Zecevic átti stórleik í marki Fram og átti einna stærstan þáttinn í að Framarar settu Val stólinn fyrir dyrnar.
Valur var tvisvar yfir í undanúrslitaleiknum, 11:9 og 11:10, þegar fyrri hálfleik var lokið.
Valsliðið fór illa af stað og má segja að það hafi að einhverju leyti gefið tóninn fyrir það sem koma skyldi. Sóknarleikurinn var með ósköpum og hver mistökin ráku önnur auk þess sem Darija Zecevic var vel á verði í markinu. Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari tók leikhlé eftir sex mínútur í stöðunni, 3:0, fyrir Fram. Nærri tveimur mínútum síðar skoraði Hildur Björnsdóttir fyrsta mark Valsliðsins, 3:1. Fram náði ekki að nýta þennan kafla sem skildi.
Þegar á leið fyrri hálfleik jafnaðist leikurinn en Fram var ævinlega a.m.k. marki á undan allt þangað til Thea Imani Sturludóttir jafnaði metin, 9:9, eftir liðlega 24 mínútur. Hún kom Val yfir í fyrsta sinn, 10:9, 90 sekúndum fyrir lok hálfleiksins. Varnarleikurinn var í aðalhlutverki, ekki síst þegar á leið hálfleikinn. Fram var í mestu vandræðum með að brjóta á bak aftur ákafa vörn Valsliðsins.

Beint úr aukakasti
Lena Margrét Valdimarsdóttir minnkað muninn í eitt mark beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var úti, 11:10. Fram skoraði aðeins tvö mörk á síðustu 15 mínútum hálfleiksins.
Fram jafnaði metin strax í byrjun síðari hálfleiks og náði frumkvæði á ný. Hálfri tólftu mínútu eftir að síðari hálfleikur hófst var Valur kominn þremur mörkum undir, 17:14. Ágúst Þór þjálfari Vals tók leikhlé og talaði yfir sínum leikmönnum með tveimur hrútshornum. Það dugði skammt því Fram komst fjórum mörkum yfir í kjölfarið, 18:14. Zecevic markvörður Fram fór á kostum og varði hvað eftir annað.
Thea jafnaði metin
Átta mínútum fyrir leikslok tók Valur sitt þriðja leikhlé. Fram var þá þremur mörkum yfir og hafði verið það góða stund.
Thea Imani jafnaði metin fyrir Val, 20:20, þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Karen Knútsdóttir skoraði af línunni rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok, 21:20, fyrir Fram. Valur gat jafnað en tapaði boltanum 20 sekúndum fyrir leikslok og Lena Margrét Valdimardóttir innsiglaði sigur Fram, 22:20.
Mörk Fram: Alfa Brá Hagalín 6, Karen Knútsdóttir 5/3, Harpa María Friðgeirsdóttir 4, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Darija Zecevic 1.
Varin skot: Darija Zecevic 16, 44,4%.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3, Lovísa Thompson 3, Hildur Björnsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 13, 40,6%.
Tölfræði HBStatz.