„Geggjaður sigur, geggjuð liðsheild og bara frábært,“ sagði stórskyttan unga Inga Dís Jóhannsdóttir í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í kvöld eftir að hún og liðsfélagar í Haukum unnu Gróttu, 31:21, í undanúrslitum Poweradebikarsins í handknattleik kvenna. Inga Dís og félagar leika við Fram í úrslitaleik keppninnar á Ásvöllum á laugardaginn. Viðureignin hefst klukkan 13.30.
„Við vorum aðeins að koma okkur inn í leikinn í fyrri hálfleik en þegar allt small í síðari hálfleik þá kom þetta hjá okkur,“ sagði Inga Dís sem átti stórleik í síðari hálfleik og skoraði hvert markið á eftir öðru eftir uppstökk á sama tíma og Haukar tóku öll völd á leikvellinum.
Á von á frábærum leik
Inga Dís reiknar með hörkuleik á laugardaginn gegn Fram. „Við verðum bara að hvílast vel, nærast og keyra síðan á þetta á laugardaginn. Ég á von á frábærum leik. Við viljum vinna þær núna,“ segir Inga en Haukum gekk ekki sem best gegn Fram í Olísdeildinni í vetur. Nú er kominn tími til að snúa við blaðinu að mati Ingu Dísar sem leikur sinn fyrsta úrslitaleik í bikarkeppninni í meistaraflokki eins og fleiri leikmenn Hauka.
Því er rétt að bæta við að Fram og Haukar eru jöfn að stigum í Olísdeild kvenna með 26 stig eftir 16 umferðir af 21.
Lengra viðtal er við Ingu Dís í myndskeiði hér fyrir ofan.
Stoltur af fyrri hálfleik – tíu erfiðar mínútur í síðari
Haukar í úrslit eftir sjö ára bið – síðast var Stefán hinum megin við borðið
Powerade-bikarinn, fréttasíða.