Eins illa og karlaliði Fram hefur vegnað í úrslitaleikjum bikarkeppninnar í gegnum tíðina þá hefur kvennaliði Fram gengið flest í haginn. Alltént er Fram sigursælasta lið bikarkeppninnar í kvennaflokki. Af 23 úrslitaleikjum sem kvennalið Fram hefur leikið frá 1976, þegar fyrst var leikið í bikarkeppni kvenna, hefur Fram unnið bikarinn í 16 skipti.
Framundan er 24. úrslitaleikir kvennaliðs Fram sem verður gegn Haukum í dag á Ásvöllum í Hafnarfirði. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson flauta til leiks klukkan 13.30.
Fram lék til úrslita í fyrstu keppninni fyrir nærri 50 árum en tapaði þá fyrir Ármanni eftir framlengingu, einu sinni fimm mínútur, og vítakeppni, 17:15.
Fyrsti sigurinn 1978
Fyrst vann Fram bikarkeppnina árið 1978 með sigri á FH, 13:11, í úrslitaleik. Jóhanna Halldórsdóttir og Guðríður Guðjónsdóttir sköruðu framúr hjá Fram í það skiptið, eftir því sem fram kemur í sögu handknattleiksins 1920 til 2010 eftir Steinar J. Lúðvíksson. Guðríður var þá táningur og átti svo sannarlega eftir að setja sterkan svip á kvennahandboltann, utan vallar sem innan. Fram vann bikarinn einnig 1979 og 1980 og oft sinnis eftir það á næsta áratug enda með harðsnúinn hóp.
Síðast vann Fram bikarinn í kvennaflokki fyrir fimm árum með stórsigri á KA/Þór, 31:18, sem átti eftir að mæta til leiks hálfu öðru ári síðar og ná fram hefndum, 26:20.
Tvisvar mæst í úrslitum
Lið Fram og Hauka hafa tvisvar mæst í úrslitaleik bikarkeppninnar. Fyrri viðureignin til þessa var 1999. Fram hafði betur, 17:16, og þóttu úrslitin vera óvænt vegna þess að Haukar höfðu á að skipa besta liði landsins um þessar mundir ásamt Stjörnunni. Sterkur varnarleikur Fram og stórleikur Hugrúnar Þorsteinsdóttur markvarðar reyndist Haukaliðinu erfiður sem skoraði aðeins sjö mörk í fyrri hálfleik.
Síðari viðureign Fram og Hauka í úrslitum bikarkeppninnar var árið 2018. Sá leikur varð aldrei spennandi. Fram, undir stjórn Stefáns Arnarsonar núverandi þjálfara Hauka, vann með 14 marka mun, 30:16.
Úrslitaleikur Fram og Hauka í Poweradebikar kvenna hefst á Ásvöllum í dag klukkan 13.30.