„Þetta var bara mjög erfiður leikur,“ sagði Reynir Þór Stefánsson leikmaður Fram og besti leikmaður úrslitadaga Poweradebikars karla í stuttu samtali við handbolta.is í kvöld eftir að hann og félagar hans í Fram unnu Stjörnuna í úrslitaleik Poweradebikarsins, 31:25, á Ásvöllum að viðstöddu miklu fjölmenni.
„Við vorum að ströggla svolítið í sókninni í fyrri hálfleik en náðum að gera betur í síðari hálfleik. Stjarnan gerði okkur bara erfitt fyrir með því að spila hörkuleik,“ sagði Reynir Þór sem skoraði fjögur mörk og var með sjö sköpuð færi, þar af fimm stoðsendingar.
Titill í Dalinn
„Við náðum að skila sigrinum í í höfn í lokin og fara með titil í Dalinn. Það er sætt. Nú skemmtum við okkur í kvöld og síðan tekur við úrslitaleikur í Olísdeildinni gegn Val á miðvikudaginn. Hugsum um þann leik á morgun,“ sagði glaðbeittur Reynir Þór Stefánsson nýkrýndur bikarmeistari í Fram.
Með dalnum á Reynir Þór við Úlfarsárdal þar sem Fram hefur komið sér vel fyrir á allra síðustu árum eftir að hafa kvatt Safamýri.
Lengra viðtal við Reyni Þór er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Framarar fóru kampakátir frá Ásvöllum
Poweradebikarinn – fréttasíða.