Leonel Fernandes tryggði FC Porto annað stigið í uppgjöri erkifjendanna, Porto og Sporting Lissabon í portúgalska handboltanum í gærkvöld, 30:30. Leikið var í Pavilhão João Rocha í Lissabon og komu íslensku landsliðsmennirnir Orri Freyr Þorkelsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson við sögu í leiknum.
Fyrrgreindur Fernandes laumaðist inn í sendingu milli leikmanna Sporting, geystist fram völlinn og skoraði jöfnunarmarkið á síðustu andartökum leiksins.
Orri Freyr skoraði fjögur mörk fyrir Sporting og Þorsteinn Leó eitt fyrir Porto.

Sporting, Porto og Benfica eru jöfn að stigum, með 60 hvert, tvö fyrstnefndu liðin hafa leikið 21 leik hvort en Benfica sem vann ABC de Braga á föstudaginn hefur lokið 22 leikjum og hefur þar með lokið deildarkeppninni.
Síðustu leikirnir eftir viku
Porto á eftir leik við Avanca á laugardaginn eftir viku og daginn eftir mætir Sporting liðsmönnum Povoa. Báðum viðureignum var slegið á frest fyrr í vetur. M.a. míglak keppnishöllin þegar Porto og Avanca mættust fyrr í vetur og var leik hætt eftir nokkrar mínútur þegar leikmenn runnu í pollum á leikgólfinu.
Sporting vann fyrri viðureignina við Porto í vetur og stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum verði liðin jöfn þegar deildarkeppninni lýkur.