Spánverjar unnu dramatískan sigur á frændum okkar, Norðmönnum, 28:27 í lokaleik annarrar umferðar A-riðils handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í morgun. Aleix Gomez skoraði sigurmarkið úr vítakasti sem Adrian Figueras vann á síðustu sekúndu leiksins og kórónaði frábæran leik sinn en hann skoraði 10 mörk í 11 skotum.
Spánn heldur þar með áfram taki á Norðmönnum á handknattleiksvellinum en þetta var nítjándi sigur Spánverja á þeim í síðustu 20 leikjum.
Spánverjar hafa þar með fjögur stig eftir tvo leiki en Norðmenn tvö og mæta Argentínu á miðvikudaginn. Spánn leikur við Brasilíu en bæði suður-amerísku landsliðin eru án stiga enn sem komið er.
Magnus Jöndal jafnaði metin fyrir Noreg þegar 34 sekúndur voru til leiksloka gegn Spáni en þá höfðu Spánverjar verið marki yfir í rúmar tvær mínútur og hvorugu liðinu lánast að skora. Spænska liðið tók leikhlé þegar 18 sekúndur voru eftir af leiktímanum og lagði á ráðin. Figueras vann vítakast eftir brot Harald Reinkind og Gomez brást ekki bogalistin úr vítakastinu fremur en oftast áður.
Annars var þetta hörkuleikur og jafn á milli tveggja frábærra handknattleiksliða. Noregur var marki yfir í hálfleik, 13:12. Spánverjar voru ívið sterkari í síðari hálfleik ef eitthvað var. Þeir náðu tvisvar sinnum þriggja marka forskoti í síðari hálfleik, 25:22 og 26:23.
Sem fyrr segir skoraði Figuera 10 mörk fyri spænska landsliðið. Antonio Garcia skoraði fimm mörk og Angel Fernandez fjögur. Rodrigo Corralles stóð meirihluta leiktímans í spænska markinu og varði 16 skot, 41% hlutfallsmarkvarsla.
Magnus Jöndal skoraði níu mörk fyrir Noreg og Sander Sagosen sex. Kristian Björnsen var næstur með fjögur. Torbjörn Bergerud átti góðan leik í norska markinu. Hann varði 17 skot, 38%.
Úrslit í A-riðli, 2. umferð:
Brasilía – Frakkland 29:34.
Þýskaland -Argentína 32:25.
Spánn – Noregur 28:27.
Staðan:
Næstu leikir á miðvikudag:
07.15 Noregur – Argentína.
10.30 Brasilía – Spánn.
12.30 Frakkland – Þýskaland (Alfreð Gíslason).