- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Orri Freyr innsiglaði Sporting sæti í átta liða úrslitum – myndskeið

Orri Freyr Þorkelsson landsliðsmaður og leikmaður Sporting Lissabon. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting Lissabon eru komnir í átta liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Þeir gerðu jafntefli við Wisla Plock í Póllandi í kvöld, 29:29. Orri Freyr skoraði jöfnunarmarkið mikilvæga þegar fimm sekúndur voru eftir og leikmenn Wisla höfðu misst boltann. Skömmu áður hafði Mohamed Aly markvörður Sporting varið vítakast Miha Zarabec.


Jafnteflið nægði Sporting til þess að ná öðru sæti í A-riðli og hlaupa þar með yfir fyrstu umferð útsláttarkeppninnar ásamt One Veszprém frá Ungverjalandi sem hafði þegar tryggt sér efsta sætið í riðlinum. Eins marks tap One Veszprém fyrir Füchse Berlin hafði ekki áhrif á stöðu ungversku meistaranna.

Anton og Jónas dæmdu

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu viðureignina í Plock í kvöld. Viktor Gísli Hallgrímsson var ekki með Wisla í leiknum.

Lengi vel blés ekki byrlega fyrir Sporting í leiknum sem var undir alla leikinn, m.a. var fimm marka munur á kafla í síðari hálfleik.

Skoraði þrjú mörk

Orri Freyr skoraði þrjú mörk í leiknum fyrir Sporting sem náði svo sannarlega stórum áfanga með því að ná öðru sæti riðilsins.
Martím Costa var markahæstur með 10 mörk. Hann var frekur til fjörsins og átti 17 markskot í fjarveru bróður síns Francesco sem er meiddur.

Aron Pálmarsson sækir að marki Füchse Berlin í viðureigninni í kvöld. Ljósmynd/EPA

Íslensk mörk í Veszprém

Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir One Veszprém og Bjarki Már Elísson tvö í eins marks tapi fyrir Füchse Berlin, 33:32, í Vepszprém. Tim Freihöfer skoraði sigurmark Berlínarliðsins.

Haukur Þrastarson og félagar kræktu í fimmta sæti A-riðils með öruggum sigur á Fredericia, 37:32, í Danmörku. Haukur skoraði fimm mörk. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði einu sinni fyrir Fredericia sem rekur lestina í riðlinum.

PSG vann Eurofarm Pelister, 35:26, í Norður Makedóníu. Sigurinn nægði PSG aðeins til þess að hafna í fjórða sæti. Pelister er úr leik eins og Fredericia.

Í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar mætast:
Industria Kielce - Füchse Berlin.
Wisla Plock - HBC Nantes.
Pick Szeged - PSG.
Dinamo Búkarest - SC Magdeburg.
Leikið verður 26., 27. mars og 2. og 3. apríl.
- Sigurliðin taka sæti í átta liða úrslitum ásamt Barcelona, One Veszprém, Aalborg Håndbold og Sporting Lissabon.
Átta liða úrslit:
Dinamo eða SC Magdeburg - One Veszprém.
Pick Szeged - Barcelona.
Wisla Plock eða Nantes - Sporting.
Industria Kielce eða F. Berlin - Aalborg.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -