HF Karlskrona gerði sér lítið fyrir og vann efsta lið sænsku úrvalsdeildarinnar, Ystads IF, 28:26, á heimavelli í dag en þetta var aðeins þriðja tap Ystads-liðsins í deildinni í 23 leikjum. Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Karlskrona og gaf tvær stoðsendingar. Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði einu sinni.
Phil Döhler, fyrrverandi markvörður FH, varði sjö skot, þar af eitt vítakast, 28%. Döhler stóð hluta leiksins í marki HF Karlskrona.
HF Karlskrona er í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig, er sjö stigum á eftir toppliðinu Ystads sem á auk þess leik til góða.
Einar Bragi Aðalsteinsson og félagar í IFK Kristianstad unnu stórsigur á Amo HK á heimavelli, 35:22, og situr í þriðja sæti, stigi á undan grannliðinu Karlskrona.
Einar Bragi skoraði fjögur mörk, átti tvær stoðsendingar auk þess að vera vikið í tvígang af leikvelli. Victor Bang markvörður Kristianstad varði 17 skot, 52%, þann tíma sem hann stóð vaktina. Bang dró skástu tennurnar úr leikmönnum Amo með frammistöðu sinni.
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk fyrir Amo, átti þrjár stoðsendingar og var vikið af leikvelli einu sinni.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni: