- Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk þegar One Veszprém vann Csurgói KK, 40:29, í ungversku 1.deildinni í handknattleik í gær á útivelli. Aron Pálmarsson tók ekki þátt í leiknum. Veszprém er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 34 stig eftir 18 leiki. Szeged er tveimur stigum á eftir.
- Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Kolstad þegar liðið vann Halden eftir mikla baráttu, 33:31, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Þrándheimi. Arnór Snær Óskarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu ekki fyrir Kolstad að þessu sinni. Benedikt Gunnar átti þrjár stoðsendingar og Arnór Snær eina.
- Sigurjón Guðmundsson markvörður var kallaður inn í lið Kolstad vegna veikina Torbjørns Bergerud markvarðar Kolstad. Sigurjón varð þrjú af níu skotum sem hann fékk á sig þann tíma sem hann stóð vaktina í marki Kolstad. Sigurjón leikur með venslaliði Kolstad, Charlottenlund, en hefur af og til verið kallaður yfir Kolstad-liðið.
- Kolstad er sem fyrr í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir Elverum, þegar 23 af 26 umferðum er lokið.
- Elverum vann Drammen á heimavelli í gær, 36:25. Ísak Steinsson, sem kemur til móts við íslenska landsliðið í Grikklandi í dag, varði sjö skot, 30%, þá stund sem hann fékk til þess að verja mark Drammen í leiknum. Drammen er í 5. sæti með 27 stig eftir 24 leiki.
- Daníel Þór Ingason skoraði fjögur mörk og gaf eina stoðsendingu í gær þegar lið hans, Balingen-Weilstetten, tapaði 30:28, á útivelli fyrir Dessau-Rosslauer HV 06 í 2. deild þýska handknattleiksins. Balingen er í fjórða sæti deildarinnar sjö stigum á eftir Bergischer HC sem er efst. GWD Minden og Hüttenberg eru í öðru og þriðja sæti með 29 stig hvort.
- Elmar Erlingsson og félagar í Nordhorn-Lingen töpuðu í gær í heimsókn til TV Großwallstadt, 24:23, í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Elmar skoraði ekki að þessu sinni. Nordhorn-Lingen erí 6. sæti með 24 stig, aðeins þremur á eftir Balingen–Weilstetten.
- Fredericia HK, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Einar Þorsteinn Ólafsson leikur með, tapaði fyrir TMS Ringsted í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær, 30:25. Einar Þorsteinn skoraði ekki marki í leiknum. Fredericia HK situr í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig eins og Kristján Örn Kristjánsson og félagar í Skanderborg AGF.