„Þetta bar skjótt að. Strax eftir leikinn á laugardaginn þá beið mín símtal frá Snorra. Þegar landsliðið á í hlut þá er maður alltaf klár,“ segir Björgvin Páll Gústavsson hinn reyndi markvörður landsliðsins og Vals sem kallaður var inn í landsliðið á laugardagskvöldið þegar ljóst var að Viktor Gísli Hallgrímsson gæti ekki tekið þátt í leiknum við Grikki í Chalkida á miðvikudaginn.
Byrjaði að leika með Gumma Hrafnkels
Björgvin Páll var ekki valinn í landsliðshópinn fyrir viku en nú mættur í slaginn Chalkida á miðvikudaginn.
„Ég steig mín fyrstu skref með landsliðinu með Guðmundi Hrafnkelssyni sem er 20 árum eldri en ég. Nú verð ég með Ísak Steinssyni sem 20 árum yngri en ég. Ég hef náð mjög víðum aldurshópi markmanna á rúmlega 20 árum með landsliðinu,“ segir Björgvin Páll þegar handbolti.is hitti markvörðinn reynda í Chalkida í morgun.
Var sár og svekktur
Björgvin Páll fer ekki í grafgötur með að hafa verið vonsvikinn þegar tilkynnt var fyrir viku að hann væri ekki valinn.
„Ég var sár og svekktur yfir að hafa ekki verið valinn en að sama skapi hafði ég skilning á að maður var einu sinni í þessum sporum að vera ungur og efnilegur markmaður. Maður er ekki eilífur í þessu. Það verður gaman að fá tækifæri til þess að taka verkefni með Ísak. Hann er ungur og efnilegur markvörður sem hefur staðið sig vel upp á síðkastið. Það verður bara gaman að deila með honum verkefni,“ segir Björgvin Páll sem kynntist Ísak Steinssyni lítillega í janúar þegar sá síðarnefndi æfði nokkrum sinnum með HM-hópnum.
Spannar langa sögu
Segja má ferill Björgvins Pál spanni langa sögu, allt frá því að leika með Guðmundi Hrafnkelssyni sem hóf sinn landsliðsferil fyrir um 40 árum og allt til þess að leika með Ísaki Steinssyni sem er fæddur 2005.
„Ætli að ég sé ekki sá eini sem nær að leika með Gumma Hrafnkels og Ísak,“ segir Björgvin Páll léttur í bragði að vanda.
Alltaf jafn gaman
„Það er líka gaman fyrir mig að fá hvert tækifærið á eftir öðru með landsliðnu. Það skiptir engu máli hversu gamall maður verður þá er þetta alltaf jafn gaman og mikill heiður þótt mitt stærsta verkefni sé að vera foreldri.
Ég ætla að njóta þess að vera með landsliðinu hvort sem einn leikur er eftir, eitt ár eða tíu,“ segir Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður.
Lengra viðtal við Björgvin Pál er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.