Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er mættur til leiks með íslenska landsliðinu í handknattleik eftir rúmlega árs fjarveru. Hann er þess albúinn að láta til sín taka gegn Grikkjum á miðvikudaginn í undankeppni EM, nýta tækifærið sem hann fær vegna fjarveru margra sterkra leikmanna.
„Þetta er ekki í fyrsta sem ég er plan B hjá landsliðinu þegar aðrir eru meiddir og ég verð að hlaupa í skarðið. Frá því að Snorri tók við hef ég leikið í um 25 mínútur fyrir hann. Við verðum að sjá til hvernig gengur núna,“ sagði Donni í samtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í Grikklandi síðdegis í dag.
„Við náum þremur æfingum saman fyrir leikinn svo það verður spennandi að sjá hvernig gengur þegar á hólminn verður komið. Leikurinn verður erfiður,“ segir Donni.
Frá Frakklandi til Danmerkur
Donni færði sig um set síðasta sumar frá suður-Frakklandi til Skanderborg á Jótlandi. Honum líkar handboltalífið vel í Danmörku. „Mér hefur gengið vel og eins liðinu. Við erum í þriðja sæti í dönsku úrvalsdeildinni og höfum staðist væntingar,“ segir Donni sem er óðum að ná sér á strik í dönskunni samhliða öðru.
Lengra viðtal er við Donna í myndskeiði hér fyrir ofan.