Tilkynnt var í dag að Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik hafi samið við þýska 1. deildarliðið Rhein-Neckar Löwen frá og með næsta keppnistímabili. Sterkur orðrómur hefur verið uppi um vistaskipti Hauks allt frá því að heimsmeistaramótinu í handknattleik lauk í janúar. Haukur kemur til þýska félagsins í sumar þegar eins árs samningur hans við rúmenska meistaraliðið Dinamo Búkarest rennur sitt skeið á enda.
Haukur hefur ekki áður leikið í Þýskalandi. Hann fór 19 ára gamall frá Selfossi til Kielce í Póllandi og var hjá félaginu allt þar til á síðasta sumri hann samdi til eins árs við rúmensku meistarana.
Í fremstu röð
Rhein-Neckar Löwen er í sjöunda sæti þýsku 1. deildarinnar um þessar mundir með 25 stig þegar 13 umferðir eru eftir. Lið félagsins hefur lengi verið í fremstu röð í Þýskalandi. Það varð meistari 2016 og 2017 og bikarmeistari 2018 og 2023. Þá vann Rhein-Neckar Löwen Evrópukeppni bikarhafa, nú Evrópudeildina, 2013.
Haukur verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í kvöld gegn Grikkjum í undankeppni EM í Chalkida í Grikklandi og aftur í Laugardalshöll á laugardaginn.
Stór hópur hefur áður verið
Talsverður hópur íslenskra handknattleiksmanna hefur leikið með Rhein-Neckar Löwen í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna Alexander Petersson, Guðjón Val Sigurðsson, Guðmund Hrafnkelsson, Ólaf Stefánsson, Snorra Stein Guðjónsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Róbert Gunnarsson, Ými Örn Gíslason og Arnór Snæ Óskarsson. Sá síðastnefndi kvaddi félagið í vetur og gekk til liðs við Kolstad í Noregi.
Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfaði Rhein-Neckar Löwen frá 2010 til 2014.