„Þetta verður erfiður leikur. Heimaleikur og við erum betri svo það er alltaf pressa á okkur. Ef allt er eðlilegt eigum við vinna en það verður að hafa fyrir sigrinum. Við höfum flaskað á því að mæta ekki af fullum þunga í heimaleiki og þá hefur verið basl á okkur,“ segir Janus Daði Smárason hinn leikreyndi leikmaður íslenska landsliðsins um viðureignina við Grikki í undankeppni EM sem fram fer í Laugardalshöll á morgun klukkan 16.
Uppselt er á leikinn við Grikki í Laugardalshöll
Eftir sigur í fyrri viðureigninni er gerð sú krafa að íslenska landsliðið vinni einnig heimaleikinn en með sigri verður farseðill í lokakeppni EM á næsta ári í hendi.
„Að sama skapi þá eru dagarnir fáir sem við náum saman sem landslið þeim mun mikilvægara er að nýta tímann vel,“ segir Janus Daði sem segir eitt og annað megi bæta frá fyrri viðureigninni í Chalkida í Grikklandi á miðvikudaginn.
Ekki á sama stað og Danir
„Við erum ekki komnir á sama stað sem lið og danska landsliðið þar sem allt rúllar eins og vanalega þegar það kemur saman. Við erum að berjast við að komast nærri toppnum og þá verður að gera þá kröfur til okkar að vanda okkur í sextíu mínútur,“ segir Janus Daði og bætir við að leikirnir eru fáir en skemmtilegir í Laugardalshöll. Þeim mun mikilvægara er að láta muna um þá
Lengra viðtal er við Janus Daða í myndskeiði ofar í þessari grein.