Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik segir að stefnan að gera betur gegn Grikkjum í Laugardalshöll í dag en gegn þeim ytra á miðvikudaginn. Eftir að hafa grandskoðað fyrri leikinn þá sé eitt og annað sem betur hafi mátt fara. Þess utan tryggir sigur í dag farseðil á Evrópumótið sem haldið verður í upphafi næsta árs í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
„Við erum spenntir fyrir að leika á heimavelli í fullri höll áhorfenda,“ segir Haukur sem var í stóru hlutverki í viðureigninni Chalkida á miðvikudagskvöld sem vannst með níu marka mun, 34:25.
„Það er undir mér komið að nýta tækifærin þegar þau gefast. Það er bara gaman. Við erum í dauðafæri að tryggja okkur inn á EM og stefnan er að ná því markmiði og gera það vel,“ segir Haukur Þrastarson í samtali við handbolta.is.
Lengra viðtal er við Hauk á myndskeið hér fyrir ofan.
Uppselt er á viðureignina sem hefst klukkan 16 í Laugardalshöll. Sjónvarpað verður frá leiknum á RÚV. Handbolti.is verður einnig með textalýsingu.
Með sigri í viðureigninni í dag tryggir íslenska landsliðið sér þátttökurétt í lokakeppni EM sem fram fer 15. janúar til 1. febrúar 2026 í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Tveir síðustu leikir íslenska lansliðsins í undankeppninni fara fram í 7. og 11. maí gegn Bosníu ytra og Georgíu í Laugardalshöll.