Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann Ungverja, 29:28, í úrslitaleik um þriðja sætið á fjögurra þjóða móti í París síðdegis í dag. Ungverjar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik en liðin eru afar áþekk að getu. Þátttaka í mótinu var liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Póllandi í síðari hluta júnímánaðar.
Frakkar unnu Spánverja í úrslitaleik, 27:26.
Jafnt var á með liðunum nánast allan fyrri hálfleikinn í dag. Það var ekki fyrr en á lokamínútum hálfleiksins að íslenska liðið gaf eftir og Ungverjar höfðu tveggja marka forystu, 12-14 eftir 30 mínútur.
Töluverð harka hljóp í leikinn í síðari hálfleik, liðin fengu fjölda brottvísana og einn Ungverjinn fékk réttilega rautt spjald um miðjan síðari hálfleikinn fyrir að ganga of langt. Þrátt fyrir þetta héldu Ungverjar naumu forskoti. þegar 10 mínútur lifðu leiks var forskot þeirra skyndilega komið í fjögur mörk. Þá bitu íslensku piltarnir í skjaldarrendur. Þeir náðu frábærum kafla og átu upp forskot Ungverja. Eftir æsilega spennandi lokakafla tókst íslenska liðinu að vinna með eins marks mun.
Mörk Íslands: Reynir Þór Stefánsson 9, Össur Haraldsson 6, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Elmar Erlingsson 3, Birkir Snær Steinsson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Sigurður Matthíasson 1, Eiður Valsson 1, Andri Fannar Elísson 1.
Varin skot: Ari Dignus Maríusson 9.
Streymi: U21 árs landsliðið Ísland – Ungverjaland, kl. 16.30
Íslenski hópurinn í París
Markverðir:
Ari Dignus, Haukar.
Breki Hrafn Árnason, Fram.
Aðrir leikmenn:
Andri Fannar Elísson, Haukar.
Birkir Snær Steinsson, Haukar.
Eiður Rafn Valsson, Fram.
Elmar Erlingsson, Nordhorn-Lingen.
Hans Jörgen Ólafsson, Stjarnan
Hinrik Hugi Heiðarsson, Haukar.
Ívar Bessi Viðarsson, ÍBV.
Reynir Þór Stefánsson, Fram.
Sigurður Páll Matthíasson, Víkingur.
Sigurður Snær Sigurjónsson, Haukar.
Skarphéðinn Ívar Einarsson, Haukar.
Þorvaldur Örn Þorvaldsson, Valur.
Össur Haraldsson, Haukar.
Atli Steinn Arnarson, Grótta, var í hópnum sem valinn var fyrir mótið en fór ekki með til Parísar vegna meiðsla.
Einar Andri Einarsson, þjálfari.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari.
Lúðvík Már Matthíasson, sjúkraþjálfari.
Magnús Kári Jónsson, fararstjóri.