„Haukar eru mitt félag og þess vegna var ekkert annað inni í myndinni en ganga til liðs við Hauka úr því að ég flutti heim á annað borð. Á Íslandi er bara eitt félag í mínum augum,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson, handknattleiksmaður, við handbolta.is en í dag var tilkynnt að Stefán Rafn hafi skrifaði undir þriggja ára samning við Hauka eftir átta ára veru úti í atvinnumennsku í handknattleik.
Stefán Rafn hefur um langt skeið barist við iljarfellsbólgu sem hefur reynst einstaklega þrálát. Þótt hann hafi skrifað undir samning við Hauka er með öllu óljóst hvort Stefán Rafn muni leika með Haukum á þessu keppnistímabili vegna þess að hann á enn talsvert í land með að ná sér góðum.
„Númer eitt, tvö og þrjú er að ná sér góðum af þessum meiðslum, komast af stað og geta leikið handbolta aftur verkjalaus. Framhaldið ræðst af batanum,“ segir Stefán Rafn sem náði samkomulagi í kringum áramótin við ungverska stórliðið Pick Szeged um riftun á samningi sínum. Stefán hafði þá verið í rúm þrjú ár í herbúðum Szeged, þar af nánast alveg frá keppni síðasta árið.
„Ég er í frábærum höndum hér heima varðandi læknisaðstoð og sjúkraþjálfun“
„Ég var um tíma kominn á ágætt ról þegar bakslag varð. Nú síðast hitti ég Brynjólf Jónsson lækni í byrjun vikunnar þar sem hann sprautaði í sinina. Það er von okkar að hann hafi smellhitt á réttan stað svo ég geti farið að hlaupa á nýjan leik fljótlega. Það væri ágæt byrjun.
Ég hef verið mjög aumur í hálft annað ár og jafnvel lengur,“ segir Stefán Rafn um iljarfellsbólguna sem að hrjáir hann.
„Fyrst fann ég fyrir þessu fyrir fjórum árum. Síðan hefur þetta versnað jafnt og þétt. Ég fór í litla aðgerð auk þess að fá nokkrar sprautur sem ekki hafa hjálpað til lengri tíma litið. Satt að segja hefur þetta verið alveg skelfilegt ástand,“ segir Stefán sem sá þann kost vænstan að pakka saman í Ungverjalandi og flytja heim, en eiginkona hans og sonur hafa verið á Íslandi í rúmt hálft ár.
„Hér heima get ég náð mér góðum og á mínum hraða. Ég er í frábærum höndum hér heima varðandi læknisaðstoð og sjúkraþjálfun. Elís Þór Rafnsson, sjúkraþjálfari, er mér innanhandar og Brynjólfur er frábær læknir. Saman getum við vonandi náð þessu góðu því ástandið hefur alls ekki verið gott um langt skeið. Þetta gekk ekki lengur. Á síðasta eina og hálfa ári hef ég náð einum og einum leik og þurft langa hvíld á milli.“
Stefán Rafn segir að tíminn verði að leiða það í ljós hvenær hann getur leikið handknattleik á nýjan leik. „Fyrsta skrefið er að geta hlaupið án verkja. Núna finn alltaf fyrir stífleika í sininni þótt ég geri allt til þess halda þessu góðu. Þess utan þá ætla ég líka að geta gengið á fótunum eftir að handboltaferlinum verður lokið. Það er ekki síður mikilvægt. Við sjáum til hvað verða vill,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson, í samtali við handbolta.is í dag.