Að margra mati var ákvörðun franska handknattleiksmannsins Luc Abalo að semja við norska meistaraliðið Elverum óvæntustu og athyglisverðustu fréttir af leikmannamarkaðnum í karlaflokki í Evrópu í sumar. Reyndar þótti forráðamönnum Elverum svo ótrúlegt að fá skeyti frá umboðsmanni Abalo í vor að þeir töldu að um Nígeríupóst væri að ræða og svöruðu ekki í fyrstu.
Hvað sem því líður þá er Abalo loksins kominn til Noregs þótt nokkuð sé síðan norska úrvalsdeildin hófst. Eins og áður hefur verið rakið í frétt hér á handbolti.is þá settu norsk skattalög strik í reikninginn og takmarka mjög hversu lengi hann getur eða má búa í landinu án þess að ríða fjárhag Elverum á slig.
Abalo lék sinn fyrsta leik með norska meistaraliðinu í gær og skoraði 2 mörk þegar Elverum vann Kolstad, 31:27, á heimavelli að viðstöddum 200 áhorfendum. Ekki mega fleiri áhorfendur vera viðstaddir kappleiki í Noregi. Abalo hafði fremur hægt um sig í leiknum. Þótt hann hafi æft vel með sínu fyrrverandi liði þá skortir enn nokkuð upp á leikæfinguna.
Abalo hefur undanfarin 15 ár verið einn allra fremsti hornamaður heims og átt fast sæti í franska landsliðinu. Síðustu ár hefur hann leikið með PSG í París en fékk ekki nýjan samning í vor.