Kadetten Schaffhausen, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, er komið í úrslit um meistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss. Kadetten vann GC Amicitia Zürich í þriðja sinn í dag, að þessu sinni 28:21, á heimavelli. Kadetten vann þar með einvígi liðanna í undanúrslitum með þremur vinningum gegn engum.
Kadetten mætir annað hvort meisturum síðasta árs, Pfadi Winterthur, eða Wacker Thun í úrslitum. Staðan er í jöfn í rimmu liðanna en þriðja viðureignin stendur yfir þegar þetta er skrifað. Hvernig sem sá leikur fer þá er ljóst að hið minnsta einn leik þarf til til viðbótar til að knýja fram úrslit vegna þess að staðan var jöfn, 1:1, í vinningum talið áður en flautað var til leiks í Winterthur í kvöld.
Eiga titil að verja
Hannes Jón Jónsson og lærisveinar hans í Alpla Hard leika til úrslita um meistaratitilinn í Austurríki. Alpla Hard vann Linz öðru sinni í undanúrslitum í dag, 26:25, þegar leikið var í Linz. Ekki liggur fyrir hvort Alpla, sem á titil að verja, leikur við Krems eða Aon Fivers í úrslitum. Krems vann fyrsta leik liðanna og getur þar með önglað í sæti í úrslitum með því að vinna á heimavelli í kvöld þegar liðin mætast öðru sinni.