U–21 árs landslið Íslands í handknattleik karla vann stórsigur á Frökkum í vináttuleik í Abbeville í Frakklandi í kvöld, 33:24, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12. Níu marka sigur á Frökkum er enn athyglisverðari fyrir þær sakir að Frakkar höfnuðu í sjötta sæti á EM 20 ára landsliða á síðasta sumri, talsvert framar en íslenska landsliðið.
Eftir því sem kemur fram á heimasíðu HSÍ þá léku íslensku piltarnir frábærlega í leiknum og Adam Thorstensen fór hamförum í markinu. Hann var valinn maður leiksins.
Íslensku piltarnir tóku frumkvæðið strax í upphafi og voru fjórum mörk yfir í hálfleik. Frakkar minnkuðu muninn í tvö mörk, 22:20, um miðjan seinni hálfleik. Nær komust þeir ekki og íslenska liðið skildi heimamenn eftir í rykinu.
Vörn og markvarsla var til sóma og sóknarleikurinn til prýði. Einar Bragi Aðalsteinsson var öflugur, jafnt í vörn sem sókn.
Mörk Íslands: Benedikt Gunnar Óskarsson 8/6, Einar Bragi Aðalsteinsson 5, Símon Michael Guðjónsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Róbert Snær Örvarsson 3, Arnór Viðarsson 2, Reynir Þór Stefánsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Kjartan Þór Júlíusson 1, Stefán Orri Arnalds 1, Tryggvi Þórisson 1.
Eitt mark féll á milli þilja í talningu hjá starfsmanni C.
Varin skot: Adam Thorstensen 16, Bruno Bernat 2.
Liðin mætast aftur á morgun kl. 18:30 og verður leiknum streymt gegn gjaldi á https://www.handballtv.fr/en/player/events/17335c38-9b56-4fb7-b21d-f1dda38533b6/france-islande-u21