„Fyrst og fremst ætlum við að tryggja okkur þátttökurétt á næsta stórmót,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon annar þjálfara U20 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is. Íslenska liðið hélt af landi brott í gærkvöld og hefur leik á Evrópumóti 20 ára landsliða í Celje í Slóveníu í fyrramálið gegn landsliði Úkraínu. Reyndar fara leikir íslenska liðsins í riðalakeppninni fram í Laško, skammt frá Celje.
Leikir Íslands á EM U20 ára - riðlakeppni:
10. júlí: Ísland - Úkraína, kl. 10.
11. júlí: Ísland - Pólland, kl. 14.40.
13. júlí: Ísland - Svíþjóð, kl. 14.40.
- Allt íslenskir tímar en tveggja stunda munur er á Íslandi og Slóveníu.
- Handbolti.is mun eftir megni fylgjast með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu.
„Við rennum að mörgu leyti blint í sjóinn. Strákarnir voru flestir í 19 ára landsliðinu sem hafnaði í 19. sæti á HM á síðasta sumri. Marmiðið er að gera betur,“ segir Halldór Jóhann þegar handbolti.is leit inn á æfingu landsliðsins í Kaplakrika um síðustu helgi.
Æfingar hafa staðið yfir síðasta mánuðinn og m.a. lék liðið tvo vináttuleiki við Færeyinga hér á landi í byrjun júlí. Færeyingar verða einnig með á Evrópumótinu sem verður það fyrsta með 24 þátttökuliðum í stað 16. Þátttökulið á HM er aftur á móti 32.
Íslenska liðið verður með landsliðum Úkraínu, Póllands og Svíþjóðar í riðli á mótinu og kemst eitt lið áfram í átta liða úrslit. Tvö lið sem hafna í öðru sæti í riðlunum sex öðlast einnig sæti í átta liða úrslitum.
Halldór Jóhann segist vera búinn að fara yfir leiki Svía og Úkraínumanna en síðarnefnda liðið verður andstæðingur Íslands í fyrstu umferð í fyrramálið.
Fimmtán efstu liðin á EM tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts 21 árs landsliða sem fram fer í Póllandi á næsta ári.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Halldór Jóhann efst í þessari frétt.
Leikjum Evrópumótsins verður ekki streymt án endurgjalds á ehftv.com eins og undanfarin ár. EHF (Handknattleikssamband Evrópu) samdi við Solidsports um sýningarétt frá öllum leikjum mótsins. Hægt er kaupa aðgang að öllum leikjum mótsins fyrir 30 evrur. Stakir leikir kosta 8 evrur.
Slóðin að útsendingum Solidsports er: https://handball-globe.tv/m20-ehf-euro2024.
- Handbolti.is verður með textalýsingar frá öllum leikjum Íslands.
Leikmannahópur Íslands
Markverðir:
Breki Hrafn Árnason, Fram.
Ísak Steinsson, Drammen/Ros.
Aðrir leikmenn:
Andri Fannar Elísson, Haukum.
Atli Steinn Arnarsson, FH.
Birkir Snær Steinsson, Haukum.
Daníel Örn Guðmundsson, Val.
Eiður Rafn Valsson, Fram.
Elmar Erlingsson, ÍBV.
Gunnar Kári Bragason, Selfossi.
Haukur Ingi Hauksson, HK.
Hinrik Hugi Heiðarsson, ÍBV.
Ívar Bessi Viðarsson, ÍBV.
Kjartan Þór Júlíusson, Fram.
Reynir Þór Stefánsson, Fram.
Skarphéðinn Ívar Einarsson, KA.
Össur Haraldsson, Haukum.
Þjálfarar og starfsmenn:
Einar Andri Einarsson.
Halldór Jóhann Sigfússon.
Gísli Guðmundsson markvarðaþjálfari.
Kári Árnason sjúkraþjálfari.
Herbert Ingi Sigfússon fararstjóri.
Erum hungraðir í að ná góðum árangri
Markmiðið er að fara átta liða úrslit