Spánverjinn Carlos Martin Santos er að hefja sitt fjórða keppnistímabil sem handknattleiksþjálfari hjá Herði á Ísafirði. Undir hans stjórn og með góðum liðsstyrk hefur uppgangur liðsins verið sannkallað ævintýri. Hörður lék í 2. deild tímabilið 2019/2020. Mörgum þótt skrefið djarft að taka sæti í Grill66-deildinni haustið 2020 og ætla sér að byggja upp lið sem gæti farið upp í Olísdeildina. Strax á fyrsta ári Harðar í Grill66-deildinni var ljóst að Santos og félögum í stjórn liðsins var full alvara keppnistímabilið 2020/2021.
Hörður vann Grill66-deildina í vor og nú bíður Santos og liðsmanna hans sú áskorun að leika í Olísdeild karla í fyrsta sinn á keppnistímabilinu sem framundan er og hófst í gærkvöld.
Fyrsti leikur gegn meisturunum
Fyrsti leikur Harðar verður ekki fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku þegar liðið sækir Íslandsmeistara Vals heim í Origohöllina. Upphaflega stóð til að Hörður léki gegn ÍBV í fyrstu umferð í gær en leiknum var frestað til 2. október vegna þátttöku ÍBV í Evrópubikarkeppni um helgina.
Tímamót á margan hátt
Santos segir mikla tilhlökkun ríkja innan Harðar fyrir fyrsta leiknum, sem verður á móti Íslandsmeisturum Vals á heimavelli þeirra á fimmtudaginn. Um tímamót verður að ræða. Hvorki Hörður né Vestfirðingar hafa áður átt lið í efstu deild handknattleiks karla.
Ekkert verra að byrja gegn þeim bestu
„Ég fylltist tilhlökkun þegar ég sá fyrstu niðurröðun mótsins og að fyrsti leikurinn væri við ÍBV og sá næsti við Val. Liðin tvö sem léku um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Með því að mæta öflugustu liðunum snemma vonast ég til að mesti skrekkurinn renni af mínum mönnum og að þeir mæti reynslunni ríkari í framhaldið. Ég tel að það geti verið kostur fyrir okkar að mæta bestu liðunum í byrjun,” sagði Santos m.a. þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli í vikunni.
Ungt lið og reynslulítið
„Harðarliðið er skipað ungum leikmönnum sem aldrei hafa leikið í úrvalsdeild, hvorki hér á landi né annarstaðar. Okkar markmið verður fyrst og fremst að veita hvaða andstæðingi sem er verðuga keppni, gefa öllum leik,” sagði Santos ennfremur sem er með leikmenn í liði sínu sem hafa fjölbreyttan bakgrunn.
Í samræmi við væntingar
Á undirbúningstímanum lék Hörður við Fram, ÍBV og KA á Ragnarsmótinu í síðasta mánuði. Santos segir leiki liðsins hafa verið viðunandi. Vissulega hafi þeir borið þess merki að vera svokallaðir undirbúningsleikir. Árangurinn og spilamennska liðsins hafi verið í samræmi við sínar væntingar. „Menn fengu tilfinningu fyrir því að leika við lið úr úrvalsdeildinni og um leið að kynnast og læra hver inn á annan,“ sagði Santos sem valinn var þjálfari tímabilsins í Grill66-deildinni eftir síðustu leiktíð eftir glæsilegan árangur Harðar undir hans stjórn.
Þrír nýir – einn fór
Hörður samdi við þrjá nýja leikmenn í sumar. Brasilískan markvörð, Emannuel Augusto Evangelista, franska skyttu, Noah Barbou, og spænskan línumann Victor Peinado Iturrino. Fleiri leikmenn af erlendu bergi brotnu eru í leikmannahópnum, menn sem hafa leikið hér í eitt til þrjú ár.
Japanski línumaðurinn og landsliðsmaðurinn Kenya Kasahara kvaddi Hörð í sumar og gekk til liðs við félag í Póllandi. Santos segir eftirsjá vera að Kasahara sem sé drengur góður og hafi gefið mikið af sér til liðsfélaganna.
„Þremenningarnir sem komu til okkar í sumar eru ungir að árum eins og uppistaðan í okkar leikmannahópi,“ segir Santos spurður hvort hann hafi í höndum sterkara lið núna en á síðustu leiktíð.
Eiga eftir að átta sig
„Nýju mennirnir eiga eftir að kynnast mér betur og þeim kröfum sem ég geri. Eins eiga þeir eftir að venjast nýjum samherjum og átta sig á styrkleika deildarinnar. Þátttakan í deildinni verður mikil áskorun fyrir þá eins og okkur alla sem erum í Harðarliðinu og ekki síður fyrir mig sem þjálfara.
Við erum allir nýgræðingar í úrvalsdeildinni og eigum eftir að læra ýmislegt. Menn eru hinsvegar staðráðnir í að leggja sig fram og veita öllum okkar andstæðingum verðuga keppni. Við áttum okkur á stöðu okkar og hvaðan við komum. Markmiðið er að taka eitt skref í einu og taka framförum. Síðan verður að koma í ljós hvaða árangri það skilar okkar þegar upp verður staðið,“ sagði Carlos Martin Santos sem auk þess að þjálfa meistaraflokkslið Harðar í karlaflokki hefur einnig umsjón með þjálfun barna og unglinga hjá handknattleiksdeild Harðar á Ísafirði. Áhuginn fer vaxandi fyrir vestan og vel haldið utan um starfið í yngri flokkunum auk þess sem aðstaðan er góð í íþróttahúsinu Torfnesi.