„Við erum ánægðir með framfarir á milli leikja í mótinu,“ segir Hrannar Guðmundsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í samtali við handbolta.is eftir að Hafnarfjarðarmótinu í handknattleik lauk í gær. Stjarnan tók þátt í þremur leikjum, vann FH og ÍBV en tapaði fyrir Haukum.
Hrannar og hans menn hafa ekki slegið slöku við kappleiki á undirbúningstímanum. „Við höfum spilað sex leiki og eigum einn eftir í næstu viku. Það er gott að fá sem flesta leiki, fín æfing sem sýnir manni hvar við stöndum og hvernig gengur að koma því til framkvæmda sem við höfum unnið að á æfingum,“ segir Hrannar ennfremur sem hlakkar til komandi leiktíðar.
„Við ætlum okkur klárlega að gera betur en í fyrra,“ sagði Hrannar en Stjarnan hafnaði í 7. sæti Olísdeildar á síðustu leiktíð og féll úr leik í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í oddaleik gegn Aftureldingu.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Hrannar efst í þessari frétt.