- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ævintýri Nærbø – engar tilviljanir – eingöngu vinna

Svavar Már Ólafsson, annar frá hægri, fagnar með félögum sínum í Nærbø. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

Norska handboltaliðið Nærbø frá samnefndum 7.000 manna bæ hefur skotið upp á stjörnuhimininn í handknattleik þar í landi á fáeinum árum. Nær allir leikmenn liðsins eru fæddir og uppaldir í bænum sem er skammt fyrir utan Stavangur. Liðið hefur rokið úr kjallaranum í norskum handknattleik og upp í úrvalsdeild á undraskömmum tíma með aga, vinnusemi og skýrri markmiðasetningu sem ekki hefur verið kvikað frá.

Í vikunni komst Nærbø í úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn og með sigri á heimavelli í úrvalsdeildinni á morgun getur það komist í upp í toppbaráttu. Ungt lið með uppöldum leikmönnum sem ætlar að verða besta lið Noregs innan fárra ára. Engar tilviljanir. Bara afrakstur vinnu og aftur vinnu.

Svavar Már Ólafsson, fyrrverandi markvörður ÍR og Stjörnunnar, lék með Nærbø um tveggja ára skeið. Hann þekkir sögu liðsins vel og sendi handbolta.is eftirfarandi grein í tilefni þess að Nærbø komst í úrslit bikarkeppninnar. Svavar býr í Noregi þar sem hann leggur stund á kennaranám.

Skýr markmið frá 11 ára aldri

Ef mér skjátlast ekki þá byrjuðu þessir drengir að æfa saman við 6 ára aldurinn. Síðar meir bættust fleiri við og varð hópurinn eins og við þekkjum hann í dag allur kominn saman við 11 ára aldur. Þegar þeir voru 11 ára tók Rune Haugseng við sem þjálfari. Hann er enn í dag aðalþjálfari liðsins. Um það leyti sem Haugsen kom til starfa setti hópurinn sér markmið. Það var að fara upp í efstu deild með Nærbø árið 2020 og til viðbótar að verða bestir í Noregi og taka þátt í Evrópukeppni fyrir árið 2024. Til þess að ná þessu markmiði var stefnan sett á stífar og erfiðar æfingar og þá meina ég virkilega erfiðar. Strákarnir æfðu á hverjum einasta degi. Þeir tóku alltaf styrktaræfingu fyrir æfingu og æfðu svo í tvo tíma á virkilega háu tempói, það var í raun og veru hlaup í tvo tíma!

Leikmaður Nærbö í sókn og freistar þess að komast framhjá Gauta Laxdal núverandi leikmanni Kríu þegar Gauti lék með Stord. Mynd/Aðsend

Þetta gerði það að verkum að þeir unnu alla sem hægt var að vinna og allt sem hægt var að vinna í Noregi og á Norðurlöndunum. Þeir voru mörgum skrefum á undan í styrk. Við 16 ára aldur skiptu þeir út öllum leikmönnum aðalliðsins og þeim slæma kúltúr sem var innan þess. Það voru einungis þeir sem höfðu áhuga á að æfa alla daga vikunnar með styrktar og þolæfingum sem fengu að halda áfram af þeim sem voru fyrir í aðalliðinu. Við tók tímabil í 2. deild sem varð svo að 1. deild árið eftir eða þegar flestir leikmenn voru 17 ára. Þá kom ég inn í þetta og var ég lang elstur ásamt einum öðrum, 25 ára.

Keyrsla tvo tíma á dag

Þegar ég kem inn í þetta voru æfingarnar virkilega stífar og var alltaf styrktaræfing á hverjum degi, hlaup lyftingar og svo keyrsla í tvo tíma eftir á í salnum sem var annað hvort hátempó handbolti eða styrkur. Aldrei var setið á teig og farið yfir taktík. Þeir þekktu hvern annan svo vel að á þessum tíma var það ekki vandamál en í dag keyra þeir mikla taktík.

Mér fannst merkilegt að sjá að eftir stífar æfingar voru þessir drengir mættir í lyftingarsalinn daginn eftir í hádeginu og var lyft eins og enginn væri morgundagurinn. Enda þegar að leikmenn voru testaðir af landsliðum sínum var styrkur þeirra umtalsvert meiri og tölur leikmanna frá Nærbø voru miklu hærri en hjá öðrum leikmönnum landsliða. Fyrsta tímabilið í 1. deild var gott og enduðum við í 4. sæti.

Vatnaskil við komu Stegavik

Árið eftir kom leikmaður að nafni Steffen Stegavik inn í hópinn en hann hafði flust á svæðið með konu sinni Camillu Herrem, einni fremstu og þekktustu handknattleikskonu Noregs. Stegavik var í allt öðrum gæðaflokki. Hann lyfti liðinu á enn hærra plan. Það skilaði sér í sæti í efstu deild 2018-2019 . Liðið bætti ekki við sig mörgum leikmönnum á fyrsta árinu sínu í efstu deild. Ég hætti og annar markmaður kom inn og svo einn hornamaður. Það var allt en samt tókst þeim að enda í 7. sæti úrvalsdeildar þar sem þeir unnu Elverum, besta lið Noregs, m.a tvisvar.

Aðbúnaður í hæsta gæðaflokki

Liðið hefur alltaf haft góða umgjörð og fólk í kringum sig. Öll aðstaða er til fyrirmyndar þar sem það er sjúkraþjálfari á hverri æfingu. Allur aðbúnaður er í hæsta gæðaflokki samanber eigin umgjörð fyrir og eftir leiki, æfingarumgjörð, klefa, aðstöðu til að hittast og til lyftinga. Æft er í höllinni sem tekur um 1.800 manns og er nánast alltaf fullt á leikjum. Þegar ég var að spila var alltaf góð stemning þar sem 1.400 manns komu saman. Síðar var höllin stækkuð en mikill áhugi er á liðinu í bænum og nágrenni. Stuðningur mikill utan vallar. Flestir leikmannanna taka lítil sem engin laun fyrir að spila og er merkilegt að sjá hvað þeir hafi haldist lengi saman þar sem oft er boðið í þá.

Annað hvort úti eða inni

Annars er við þetta að bæta að æfingarkúltúrinn var allt annar hjá þeim en mörgum öðrum. Þeir settu sér þetta markmið í sameiningu, ef að þú varst ekki með í þessu varstu úti. Þá meina ég drykkja og partý og annað slíkt var og er ekki á dagskrá. Fókusinn hefur alltaf verið á Evrópukeppni og er magnað að sjá það að þessir drengir eru ná markmiðum sínum 12 árum eftir að þau voru sett. Til þess þurfti mikinn aga og víst er að hér er ekki um tilviljun að ræða.
Liðið er í dag flest skipað af leikmönnum fæddum 1998 til 2000 og er sæti í úrslitum bikarsins aðeins byrjunin. Spennandi verður að sjá hvort þeir haldist saman í framtíðinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -