- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afar lærdómsríkur tími

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss. Mynd/Kadetten Schaffhausen
- Auglýsing -

Fresta varð viðureign Kadetten Schaffhausen og Rhein-Neckar Löwen í Evrópudeildinni í handknattleik sem fram átti að fara í kvöld. Smit kórónuveiru hafa skotið sér niður í herbúðir Kadetten undanfarnar rúmar tvær vikur. Að sögn Aðalsteins Eyjólfssonar, þjálfara Kadetten, sér ekki fyrir endan á ástandinu. Aðalsteinn og fjölskyldan hans hafa sloppið við veiruna, a.m.k. enn sem komið er.

„Undanfarnar vikur hafa verið áskorun fyrir mig sem þjálfara. Maður er alltaf að kynnast einhverju nýju í þessu ástandi,“ sagði Aðalsteinn við handbolta.is í gær.

Æft í nokkrum hópum

„Ég hef verið með leikmannahópinn við æfingar í þremur hópum og við alskyns aðstæður. Sumir hafa verið í heima og fengið æfingar í gegnum fjarfundabúnað meðan einhverjir hafa komið í íþróttahúsið og æft þar á afmörkuðum svæðum. Þess utan eru menn ýmist að veikjast eða að jafna sig,“ segir Aðalsteinn sem tók við þjálfun Kadetten í Sviss í sumar eftir að hafa þjálfað félagslið í Þýskalandi í rúman áratug.

Þrír leikir á fjórum dögum

Auk leiksins við Rhein-Neckar Löwen hefur þremur leikjum í svissnesku deildarkeppninni sem áttu að fara fram á næstu dögum verið frestað fram undir jól. „Ef allt gengur upp hjá okkur þá munum við leika þrjá leiki á fjórum dögum skömmu fyrir jól. Síðan eru eftir frestaðir leikir í Evrópukeppninni frá síðustu og þar síðustu viku auk leiksins við Löwen,“ segir Aðalsteinn sem tekur ástandi af yfirvegun, enda ekki annað í boði að hans sögn. Sannarlega sé um lærdómsríkan tíma að ræða.

Óvissa um áhrifin

Aðalsteinn segir enn ekki ljóst hvaða áhrifa veikindin hafa á leikmenn liðsins. Sumir hafa veikst meira en aðrir og hjá sumum hafa veikindin lagst m.a. á lungun en öðrum ekki. Áhrif þessa eiga eftir að skýrast betur þegar frá líður.

Veikindin gerðu fyrst vart við sig í herbúðum Kadetten nokkru eftir að liðið sótti heim Eurofarm Pelister frá Norður-Makedóníu í Evrópudeildinni 17. nóvember. Hvort leikmenn hafi smitast í ferðinni eða annarstaðar er ómögulegt um að segja með vissu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -