Sviss vann lánlaust íslenskt landslið, 20:18, í fyrstu umferð þriðja milliriðils á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í dag. Slakur sóknarleikur og þá ekki síst skotnýting auk nokkurs fjölda klaufamistaka varð íslenska landsliðinu að falli að þessu sinni. Varnarleikurinn var frábær en sóknarleikur var að sama skapi afleitur. Sviss hefur þar með fengið sín fyrstu stig í milliriðlinum. Næst leikur íslenska liðsins verður gegn Frakklandi á föstudaginn klukkan 17.
Varnarleikur íslenska liðsins var frábær frá upphafi. Lið Sviss byrjaði leikinn á að leika 6 á 6, en þegar á leið var skipt yfir í 7/6. Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar. Vel tókst til við að loka fyrir miðjumanninn slynga, Andy Schmid, og halda aftur af samvinnu hans og línumannsins sterka Alen Milosevic. Margar sóknir Sviss runnu út í sandinn og Björgvin Páll Gústavsson sem leysti Ágúst Elí Björgvinsson af eftir um stundarfjórðungsleik skoraði tvö mörk með skömmu millibili.
Arnar Freyr Arnarsson var kominn með tvær brottvísanir á bakið eftir aðeins 12 mínútna leik. Elliði Snær Viðarsson tók þá við hans hlutverki.
Sóknarleikurinn var hinsvegar akkilesarhæll íslenska liðsins framan af. Vel gekk að leika sig í færi en eins og stundum áður gekk illa að reka smiðshöggið. Alltof mikið fór í súginn af opnum færum. Eins var eitthvað um ótímabær skot.
Dagskipunin var að reyna sem mesta af langskotum þar sem lítið svigrúm var fyrir línuspil. Gísla Þorgeiri Kristjánssyni tókst framan að gera usla og opna vörnina miðja. Skotnýtingin var innan við 50% í fyrri hálfleik, níu mörk úr 21 skoti.
Varnarleikurinn var frábær í fyrri hálfleik en því miður verður ekki það sama sagt þegar kom að því að skora mörk. Íslenska liðið óð í færum og hefði með réttu átt að fara með fimm til sex marka forystu inn í hálfleikinn í stað þess að vera marki undir, 10:9.
Alexander Petersson var afar óheppinn eftir aðeins þrjá mínútur í síðari hálfleik þegar hann var aðeins of seinn í sóknarmannn og fékk rauða spjaldið fyrir. Philp Novak, leikmaður Sviss, slapp með skrekkinn nokkrum mínútum síðar fyrir að fara of harkalega í Ými Örn Gíslason.
Framan af síðari hálfleik var leikurinn svipaður þeim fyrri. Frábær varnarleikur Íslands en smiðshöggin létu standa á sér í sóknarleiknum.
Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik hafði íslenska liðið aðeins skorað 12 mörk. Skot, – og færanýting var áfram mjög slök. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var staðan jöfn, 14:14, eftir að Elvar Örn Jónsson jafnaði metin eftir hraðaupphlaup.
Viggó Kristjánsson kom Íslandi loks yfir úr vítakasti, 15:14, þegar fjórtán mínútur lifðu leiks. Hans fyrsta mark í leiknum í sjöttu tilraun sem var til marks um skotsnýtingu liðsins að einhverju leyti. Honum brást síðan bogalistin í næsta skoti á eftir.
Átta mínútum fyrir leikslok var Sviss enn marki yfir, 16:15.
Sigvaldi Björn Guðjónsson jafnaði metin, 16:16, sjö mínútum fyrir leikslok en hann hafði ekki fengið úr miklu að moða í hægra horninu. Skömmu síðar kom Viggó Íslandi yfir í þriðja sinn í leiknum, 17:16. Sviss svaraði með þremur í röð, því síðasta eftir að hafa náð frákasti í famhaldi af vörslu Björgvins af línunni. Þessu forskoti tókst hinu lánlausa íslenska liði ekki að vinna upp.
Mörk Íslands: Ólafur Andrés Guðmundsson 4, Bjarki Már Elísson 2/1, Björgvin Páll Gústavsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Viggó Kristjánsson 2/1, Elliði Snær Viðarsson 1, Alexander Petersson 1, Kristján Örn Kristjánsson 1, Oddur Gretarsson 1, Elvar Örn Jónsson 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, Ágúst Elí Björgvisson 3.