- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afleitur upphafskafli gaf Frökkum átta marka forskot – Elín Jóna átti stórleik

Elín Jóna Þorsteinsdóttir. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Óhætt að segja að íslenska liðið hafi fengið að kynnast því hvernig er við ofurefli að etja þegar það mætti Ólympíumeisturum Frakka í annarri umferð D-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik kvenna í DNB Arena í Stafangri í kvöld. Annan leikinn í röð var upphafskafli íslenska liðsins slakur og kom því sannarlega í koll því nógu erfitt er að eiga við Ólympíumeistarana svo þeim sé ekki gefið átta marka forskot á átta fyrstu mínútunum.

Frakkar slógu upp sýningu í fyrri hálfleik og gerði út um leikinn og voru 10 marka forskot að honum loknum 20:10. Meira jafnvægi var í leiknum í síðari hálfleik. Lokatölur 31:22.


Stórleikur Elínar Jónu Þorsteinsdóttur markvarðar varð til þess að ekki var enn meiri munur þegar upp var staðið. Hún var frábær og varði 14 skot, þar af fjögur af fimm vítaköstum franska liðsins. Flest önnur skotin varði Elín Jóna úr opnum færum því varnarleikuri íslenska liðsins var ekki að hjálpa henni mikið köflum í leiknum. Meira en helmingu markanna sem Elín Jóna fékk á sig í fyrri hálfleik var eftir hraðaupphlaup.

Það mun því ráðast í úrslitaleik á milli Íslands og Angóla á mánudaginn hvort liðið kemst áfram í milliriðlakeppnina í Þrándheimi eða fer í keppni neðstu liðanna um forsetabikarinn í Frederikshavn í Danmörku.

Hildigunnur Einarsdóttir lék sinn 100. landsleik í kvöld. Mynd/EPA

Annan leikinn í röð var upphafskaflinn erfiður hjá íslenska liðinu. Frakkar skoruðu átta fyrstu mörkin áður en Þórey Rósa Stefánsdóttir kom Íslandi á blað eftir átta mínútur og 19 sekúndur. Róðurinn var þungur nær allan fyrri hálfleikinn gegn kvikum leikmönnum franska liðsins. Fimmtán af sex leikmönnum liðsins leika með félagsliðum sem eiga sæti í Meistaradeild Evrópu. Það eitt segir meira en mörg orð um gæði liðsins.

Íslenska liðinu óx ásmegin þegar kom fram í síðari hálfleik. Leikmönnum jókst trú á verkefnið. Munurinn hélst óbreyttur og það skipbrot sem maður óttaðist að liðið yrði fyrir eftir fyrri hálfleikinn varð ekki raunin.

Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 7/4, Thea Imani Sturludóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Andrea Jacobsen 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Perla Ruth Albertsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 14/4, 33,3%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Handbolti.is er í Stafangri og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -