Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, vann öruggan sigur á landsliði Litáen í fimmtu og síðustu umferð riðlakeppni Opna Evrópumótsins í handknattleik í Gautborg í morgun, 21:13.
Með sigrinum er íslenska liðið öruggt um sæti í undanúrslitum. Undanúrslitaleikurinn hefst klukkan 17 á morgun gegn Króötum sem hrepptu efsta sæti B-riðils eftir sigur á Færeyingum í hádeginu, 22:17.
Spánverjar sem unnu A-riðil leika gegn Svíum í hinni viðureign undanúrslita.
Takmarkaðar upplýsingar er að fá um leikinn í morgun. Víst er þó að Ísland var sjö mörkum yfir í hálfleik, 12:5.
Þess má geta til gamans og fróðleiks að handboltahjónin sem lengi voru m.a. á Selfossi, Karolis Sropus og Roberta Strope eru í þjálfarateymi landsliðs Litáen auk Gintaras Savukynas sem þjálfar A-landslið karla. Savukynas lék lengi hér á landi með Aftureldingu, Gróttu og ÍBV.
Mörk Íslands: Jens Bragi Bergþórsson 4, Marel Baldvinsson 3, Haukur Guðmundsson 3, Ingvar Dagur Gunnarsson 2, Daníel Montoro 2, Bessi Teitsson 2, Elís Þór Aðalsteinsson 2, Ágúst Guðmundsson 1, Dagur Leó Fannarsson 1, Hrafn Þorbjarnarson 1.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 6 skot – Jens Sigurðarson 5.