Róður KA/Þórs í neðsta sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik þyngdist í kvöld þegar liðið tapaði fyrir ÍBV á heimavelli, 27:18, í KA-heimilinu í viðureign sem varð að fresta fyrr í vetur. KA/Þór á tvo leiki eftir og situr í áttunda og neðsta sæti með fimm stig þremur stigum á eftir Aftureldingu sem er næst fyrir ofan.
Næsti leikur KA/Þórs verður einmitt við Aftureldingu í KA-heimilinu eftir rúma viku.
Ljóst er að sigur á Aftureldingu dugir KA/Þór ekki einn og sér til þess að eiga von um að halda sæti í Olísdeildinni. Liðið þarf einnig stig gegn Fram í síðustu umferð 23. mars.
ÍBV er og virðist ætla að halda sér í fjórða sæti, fjórum stigum og einum leik á undan ÍR en átta stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan.
Sannast sagna þá var KA/Þórsliðið talsvert á eftir ÍBV frá upphafi til enda í leiknum í KA-heimilinu. ÍBV gætti þess að hleypa leiknum aldrei í spennu. Marta Wawrzykowska markvöðrur ÍBV sá ekki hvað síst til þess.
Eins og stundum áður þá var sóknarleikurinn Akkilesarhæll KA/Þórsliðsins. Bæði gekk illa að skora mörk auk þess sem nokkuð var um einföld mistök.
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.
Mörk KA/Þórs: Isabella Fraga 6/3, Aþena Einvarðsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 3, Nathalia Soares Baliana 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Katrín Vilhjálmsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 13/1, 38,2% – Sif Hallgrímsdóttir 2/1, 25%.
Mörk ÍBV: Elísa Elíasdóttir 8, Sunna Jónsdóttir 4, Amelía Einarsdóttir 3/2, Karolina Olszowa 3, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Þóra Björg Stefánsdóttir 2, Margrét Björg Castillo 1, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 18/1, 51,4% – Réka Edda Bognár 1, 50%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.