Ekkert lát er á kapphlaupi Füchse Berlin og SC Magdeburg um þýska meistaratitilinn í handknattleik karla. Bæði lið unnu leiki sín örugglega í kvöld þegar keppni hófst á ný í þýsku 1. deildinni. SC Magdeburg lagði Erlangen, 27:22 á heimavelli. Berlínarliðið hafði betur í heimsókn til Rhein-Neckar Löwen í Mannheim, 36:28.
Átta íslensk mörk
Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar fyrir SC Magdeburg í sigrinum dýrmæta á heimavelli. Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk, eitt úr vítakasti. Hann gaf einnig tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu.
Tim Hornke skoraði sjö mörk og var markahæstur leikmanna Magdeburg. Daninn Simon Jeppsson skoraði fimm mörk fyrir Erlangen.
Oddur markahæstur
Oddur Gretarsson var markahæstur hjá HBW Balingen-Weilstetten með sjö mörk, þar af þrjú úr vítaköstum þegar liðið tapaði í heimsókn til Hannover-Burgdorf, 35:26. Annar Akureyringur kom við sögu í leiknum, Heiðmar Felixson. Hann er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er í 6. sæti deildarinnar. Marius Steinhauser skoraði níu af mörkum Hannover-Burgdorf.
Reka lestina
Daníel Þór Ingason átti eitt markskot fyrir HBW Balingen-Weilstetten. Skotið geigaði. HBW Balingen-Weilstetten rekur sem fyrr lestina í deildinni með 11 stig, tveimur stigum á eftir Bergischer HC.
Ýmir Örn Gíslason lék að vanda með Rhein-Nekcar Löwen og tók aðallega þátt í varnarleiknum í átta marki tapi liðsins gegn Füchse Berlin. Tobias Reichmann, sem tók fram skóna á nýjan leik eftir áramótin skoraði sjö af mörkum Rhein-Neckar Löwen og var markahæstur. Hans Lindberg skoraði einnig sjö mörk fyrir lið Füchse Berlin. Lasse Andersson skoraði sex mörk.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.