KA/Þór er áfram ósigrað í Grill 66-deild kvenna í handknattleik. Liðið vann tíunda leik sinn í deildinni í dag þegar Afturelding kom í heimsókn og tapaði með níu marka mun, 31:22. KA/Þór var með fjögurra marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki, 14:10, eftir að Aftureldingarliðið hafði haft í fullu tré við heimaliðið fyrstu 20 mínútur leiksins.
KA/Þór hafði talsverða yfirburði í síðari hálfleik og jók jafnt og þétt við forskot sitt. Matea Lonac markvörður KA/Þór var frábær í dag. Hún varði 20 skot, 48%. Unnur Ómarsdóttir skoraði sjö mörk í sjö skotum og Tinna Valgerður Gísladóttir var með sex mörk í sjö skotum.
Hulda Dagsdóttir var aðsópsmest hjá Aftureldingu með níu mörk í 20 skotum. Miklu máli skipti að varnarleikur Aftureldingar var ekki góður og Saga Sif Gísladóttir náði sér lítt á strik í markinu á sama tíma og Lonac fór hamförum hinum megin vallarins.
Fyrri viðureign liðanna í september lauk með jafntefli, 25:25. Það er eina stigið sem KA/Þór hefur tapað á keppnistímabilinu. Liðið hefur 21 stig eftir 11 leiki og hefur á ný náð fjögurra stiga forskoti á HK sem er í öðru sæti deildarinnar eftir sigur á Haukum í gærkvöld, 31:17.
Afturelding situr í þriðja sæti með 15 stig, sex stigum á eftir KA/Þór.
Staðan í Grill 66-deild kvenna.
Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 7, Tinna Valgerður Gísladóttir 6, Lydía Gunnþórsdóttir 4/4, Susanne Denise Pettersen 4, Kristín A. Jóhannsdóttir 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 2.
Varin skot: Matea Lonac 20, 47,6% – Sif Hallgrímsdóttir 1, 100%.
Mörk Aftureldingar: Hulda Dagsdóttir 9/4, Katrín Helga Davíðsdóttir 5, Fanney Ösp Finnsdóttir 4, Lovísa Líf Helenudóttir 2, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 5, 13,9%.
Tölfræði HBstatz.