Evrópumeistarar SC Magdeburg halda áfram sigurgöngu sinni í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla. Stuttgart var engin hindrun fyrir liðsmenn Magdeburg á heimavelli í dag. Lokatölur, 32:23. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 17:10.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur Íslendinganna þriggja hjá Magdeburg með sex mörk, öll úr vítaköstum. Einnig átti hann þrjár stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur mörk og átti tvær stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson skoraði tvisvar, varði tvö skot í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Selfyssingurinn gaf tvær stoðsendingar.
Magdeburg hefur fullt hús stiga, átta, að loknum fjórum viðureignum. Stöðuna í deildinni er að finna hér.
Svíinn Felix Claar var markahæstur með sjö mörk og tvær stoðsendingar.
Sergey Hernández átti stórleik í marki Magdeburg með 40% hlutfallsmarkvörslu. Á sama tíma voru markverðir Stuttgart miður sín og fengu ekki við neitt ráðið.
Lenny Rubin var markahæstur hjá Stuttgart með sjö mörk.
Á sama tíma vann Lemgo lið Wetzlar, 26:21.
Rétt eftir hádegið lagði Gummersbach meistara Füchse Berlin, 34:29, eftir að hafa verið mest átta mörkum yfir, 27:19.