Fyrstu umferð í Olísdeildum kvenna og karla lýkur í dag með þremur leikjum, tveimur í kvennaflokki og einum hjá körlunum.
Handboltadagurinn hér heima byrjar með viðureign Vals og Hauka í Origo-höllinni á Hlíðarenda klukkan 13.30. Þremur stundum síðar, klukkan 16.30 mætast ÍBV og nýkrýndir meistarar meistaranna, KA/Þór, í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í lokaleik upphafsumferðar Olísdeildarinnar.
Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson, sem dæmdu karlaleik Stjörnunnar og Selfoss í TM-höllinni í gærkvöld, dæma viðureignina í Origo-höllinni en Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson halda uppi röð og reglu í leiknum í Vestmannaeyjum.
Lokaleikur fyrstu umferðar Olísdeildar karla fer síðan fram í Kaplakrika klukkan 18, þegar FH og Valur leiða saman hesta sína. Þar verður um sannkallaðan stórleik að ræða þar sem liðunum er spáð einu af þremur efstu sætum deildarinnar. Leikinn dæma Anton Gylfi Pálsson og Magnús Kári Jónsson. Þeir voru einnig á ferðinni með flautur sínar og spjöld á leik Fram og HK í gær í Olísdeild kvenna í Safamýri.
Breytingar hjá báðum liðum
Á ýmsu hefur gengið hjá Val frá síðustu leiktíð. Má þar helst geta að landsliðsmarkvörðurinn Íris Björk Símonardóttir ákvað að hætta og þá er hornamaðurinn reyndi Íris Ásta Pétursdóttir í barnsburðarleyfi. Ragnheiður Sveinsdóttir sleit krossband á dögunum, eins og kom fram á handbolti.is, og verður ekki með á keppnistímabili. Díana Dögg Magnúsdóttir gekk síðan til liðs við Zwickau í Þýskalandi í júlí.
Valsmenn sátu ekki auðum höndum á leikmanna markaðnum. Þeir kræktu m.a. í örvhentu skyttuna og landsliðskonuna Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur frá Stjörnunni, Mariam Eradze kom heim út atvinnumennsku og gekk til liðs við Hlíðarendafélagið auk þess sem Hulda Dís Þrastardóttir kom frá Selfossi og markvörðurinn Saga Sif Gísladóttir yfirgaf Hauka og gekk til liðs við Val, svo fátt eins sé getið.
Nýr þjálfari er í brúnni hjá kvennaliði Hauka. Hinn þrautreyndi Gunnar Gunnarsson tók við þjálfun í sumar af Árna Stefáni Guðjónssyni. Töluverðar breytingar hafa orðið á liðsskipan og ljóst að nýr þjálfari þarf að byggja upp nýtt lið á Ásvöllum. Fjölniskonurnar Guðrún Jenný Sigurðardóttir og Karen Birna Aradóttir eru meðal nýrra leikmanna í hópnum frá síðasta keppnistímabili auk þriggja færeyskra kvenna, Silja Muller, markvörður, Hanna Jakobsdóttir Dalsgård, sem getur leikið sem skytta og miðjumaður og Annika Fríðheim Petersen, landsliðsmarkvörður Færeyja.
Landsliðskonurnar Birna Berg Haraldsdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fluttu heim frá Þýskalandi og Frakklandi þar sem þær voru í atvinnumennsku. Báðar völdu þær að ganga til liðs við ÍBV. Þarf vart að fjölyrða um hverslags liðsstyrkur er í þeim og ljóst að ÍBV verður í toppbaráttu í deildinni að öllum óbreyttu. Einnig hafa yngri leikmenn bæst í hópinn s.s. Ólöf María Stefánsdóttir frá Val og Þóra Guðný Arnarsdóttir úr Aftureldingu sem flutti aftur heim til Eyja. Fyrir hefur ÍBV á að skipa einvala liði leikmanna eins og Sunnu Jónsdóttur, fyrrverandi atvinnukonu í handbolta í Svíþjóð og Noregi, sem lék afar vel með liðinu í fyrra
Það hljóp heldur betur á snærið hjá KA/Þór þegar liðið krækti í landsliðskonuna Rut Arnfjörð Jónsdóttur í sumar. Hún er vafalítið reyndasta handknattleikskona landsins eftir 12 ár í atvinnumennsku með nokkrum af fremstu liðum Danmerkur. Rut hefur m.a. leikið í Meistaradeild Evrópu og verið í sigurliði í Evrópukeppni bikarhafa sem lykilleikmaður.
Auk nýs þjálfara, Andra Snæs Stefánssonar, kom Sunna Guðrún Pétursdóttir til liðs við KA/Þór fyrir leiktíðina auk þess sem skyttan sterka Sólveig Lára Kristjánsdóttir er kominn á ferðina á ný, hálfu ári eftir barnsburð. Það mun muna mikið um Sólveigu Láru þegar hún verður kominn í sitt besta form sem hún stefnir hröðum skrefum að. Hún var næst markahæsti leikmaður KA/Þórs leiktíðina 2018/2019.