Jakob Ingi Stefánsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við ÍBV. Hornamaðurinn fljóti kemur til ÍBV frá Gróttu hvar hann hefur verið um sex ára skeið.
Jakob Ingi skoraði 75 mörk í 18 leikjum með Gróttu í Olísdeildinni í vetur auk 29 marka í umspili deildarinnar. Grótta tapaði fyrir Selfossi í umspilinu og féll í Grill 66-deildina.
Jakob Ingi er fjórði leikmaður Gróttu á síðasta vetri sem hefur ákveðið að reyna fyrir sér annarstaðar á næstu leiktíð.
Hinir eru Ágúst Ingi Óskarsson, Elvar Otri Hjálmarsson og Jón Ómar Gíslason. Þar að auki hefur Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu undanfarin þrjú ár ráðið sig til Vals og markvörðurinn Magnús Gunnar Karlsson fer á ný til Hauka eftir eins árs lánsdvöl á Seltjarnarnesi.
Þar með hefur ÍBV samið við tvo nýja leikmenn fyrir næstu leiktíð. Auk Jakobs Inga var tilkynnt á dögunum að Daníel Þór Ingason bætist í hópinn. Einnig verða þjálfaraskipti hjá ÍBV. Erlingur Birgir Richardsson tekur við á ný eftir tveggja ára hlé. Magnús Stefánsson, sem stýrt hefur karlaliði ÍBV frá því Erlingur hætti vorið 2023, verður þjálfari kvennaliðs ÍBV.